Hlutabréf skráð í Kauphöllinni í Shanghai féllu hratt í verði við opnun Asíumarkaða í morgun. Helsta hlutabréfavísitalan í Kína, Shanghai Composite SSE, lækkaði um 5,8% áður en verð tók aftur að rétta úr kútnum.

Fyrirætlanir Seðlabanka Kína hafa á síðustu dögum haft nokkuð veigamikil áhrif á erlendum hlutabréfamörkuðum. Í síðustu viku gaf bankinn í skyn að tími ódýrs fjármagns sé liðinn og að vaxtastig muni fara hækkandi. Því var tekið afar illa á mörkuðum og hafa hlutabréf lækkað í verði.

Eftir miklar lækkanir í morgun á kínverska markaðinum sendi seðlabankinn frá sér tilkynningu þar sem sagði að vaxtastig yrði „skynsamlegt“. Það virðist hafa róað fjárfesta en í kjölfarið á tilkynningunni gekk hröð lækkunarhrinan til baka.

Við lækkanir í morgun fór vísitalan undir 1.900 stig, í fyrsta sinn frá því í janúar 2009, að því er BBC greinir frá. Í lægstu lægðum í dag hafði vísitalan lækkað um meira en 20% frá því í febrúar á þessu ári.