Endurreisn atvinnulífsins hefur tafist verulega og tilraunir til að skjóta styrkari stoðum undir gengi krónunnar hafa enn ekki skilað árangri, af þeim sökum lækkar verðbólgan ekki meira en raun ber vitni.

Þetta segir Snorri Jakobsson, hagfræðingur hjá IFS Greiningu í samtali við Viðskiptablaðið en samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun mælist verðbólgan í júlí 11,3% og lækkar úr 12,2% frá því í júní.

Snorri segist í kjölfarið reikna með óbreyttum stýrivöxtum í ágúst, í mesta lagi lækki þeir um 100 punkta en stýrivextir eru nú 12%.

Sem dæmi um töf á endurreisn atvinnulífsins segir Snorri að endurfjármögnun bankann hafi tafist of lengi, upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að þeir yrðu endurfjármagnaðir í febrúar en fyrst núna virðist ætla að leysast úr þeim málum. Þá sé ekki enn búið að ganga frá Icesave málinu og segir Snorri að lítið muni gerast fyrr en það mál er frágengið.

Aðspurður um framhaldið gerir Snorri þó ráð fyrir að verðbólgan haldi áfram að lækka en ekki jafn hratt og gert var ráð fyrir í upphafi.

„Í vor leit út fyrir að verðbólgumarkmiðinu yrði náð um næstu áramót. Nú stefnir allt í að það verði ekki fyrr en næsta sumar,“ segir Snorri.

„Það má segja að hægagangur í endurreisn atvinnulífsins hafi framlengt verðbólgunni um sex mánuði eða svo.“

Meiri hækkun vísitölu neysluverðs í næsta mánuði

Í skýrslu, sem IFS greining sendi frá sér í morgun í kjölfar birtingu á vísitölu neysluverðs, kemur fram að eins og við var búist hækkaði eldsneytisverð um tæp 5% sem hafði um 0,23% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Verð á fötum og skóm lækkaði um 7,3% vegna sumarútsala sem hafði 0,43% áhrif á vísitöluna til lækkunar.

IFS Greining segir lækkunina vera heldur minni en í venjulegu árferði en líklega spili veiking krónunnar inn í. Húsnæðisverð lækkaði óvenju mikið eða um 2,6% sem hafði 0,35% áhrif á vísitölu til lækkunar.

Þá hækkuðu innfluttar vörur töluvert í verði í júlí en IFS segir að það megi að mestu rekja til gengisveikingar.

Þá kemur fram að nú fari að líða að lokum þeirrar tímabundnu lækkunar sem verið hefur á fatnaði í kjölfar þess að sumarútsölur fara að verða búnar. Þá munu mjólkurvörur hækka um 3,5% í næsta mánuði og líklega megi búast við að hækkun vísitölu neysluverðs í ágúst rétt undir 1,0%.