Í Svíþjóð eru bæjaryfirvöld víða gagnrýnd fyrir að vera of örlát á leyfi til bygginga stórverslana. Skipulagsyfirvöld telja að hin mikla aukning verslunarmiðstöðva dragi úr aðgengi íbúanna að verslunarþjónustu og þróun miðbæjarkjarna. Samtök kaupmanna í Gautaborg gagnrýna borgaryfirvöld harðlega fyrir að heimila ICA verslunarkeðjunni að reisa risastóra dagvöruverslun og segja að stjórnmálamenn borgarinnar sitji í kjöltu verslunarkeðjunnar.

Boverket, sem er opinber skipulagsstofnun í Svíþjóð, mun innan skamms leggja fram skýrslu þar sem bæjaryfirvöld víða um landið eru harðlega gagnrýnd fyrir það hversu viljug þau eru að heimila byggingu stórmarkaða, að því er kemur fram í netmiðlinum Dagens handel. Boverket segir bæjarfélögin brjóta lög til að koma til móts við kröfur stórmarkaða. Til lengri tíma litið minnki það aðgengi almennings að verslunum og ógni vexti og viðgangi miðbæjarkjarna segir í fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu.

Dæmi um þetta er bygging risa-dagvöruverslunar ICA sem hafin er í Helsingborg í Svíþjóð, en leyfið var veitt þrátt fyrir harða gagnrýni. Talið er að leyfisveitingin tengist því að ICA ákvað að setja upp miðlæga birgðastöð fyrir verslunarkeðjuna í Helsingborg. En fleiri bæjarfélög höfðu reynt að fá þá starfsemi til sín.