Sænska rafmerkingarfyrirtækið Pricer AB hefur samþykkt að kaupa ísraelska keppinautinn Eldat Communication í viðskiptum að virði 300 milljónir sænskra króna, sem samsvarar rúmlega þremur milljörðum íslenskra króna.

Pricer greindi frá kaupunum á mánudaginn, en Straumur-Burðarás flaggaði nýverið 5,6% eignarhlut í félaginu, sem er skráð í kauphöllina í Stokkhólmi.

Pricer segir kaupin fjármögnuð með hlutafjárútgáfu og mun Eldat skrá sig fyrir 261,9 milljónum hluta og þannig eignast 26% hlut í sameinuðu félagi.

Áætlað er að sameiningin gangi í gegn í júlí og að sölutekjur samstæðunnar verði um 454 milljónir sænskra króna á ársgrundvelli. Um 160 starfsmenn munu vinna hjá sameinuðu félagi. Pricer hefur verið rekið með tapi frá upphafi, en hins vegar hefur velta fyrirtækisins vaxið hratt og jókst um 42% í fyrra. Félagið tapaði um 30 milljónum sænskra króna í fyrra.