Enn og aftur hafa Svíar sýnt framsækni í nálgun á helstu úrlausnarefnum samtímans, eins og að tryggja jafnræði milli karllægra og kvenlægra sjónarmiða.

Sænska kvikmyndastofnunin (SFI) hefur ákveðið að styrkja gerð femínískrar klámmyndar.

Er þetta gert til  þess að stemma stigu við hinni karllægu slagsíðu sem hefur verið á gerð slíkra myndina undanfarna áratugi.

Myndin heitir Subbulegar dagbækur og er gerð hennar tilraun til þess að endurskilgreina klám á kvenlægari og samkynhneigðari forsendum en tíðkast hefur.

Fram kemur í frétt á vefsíðu sænska dagblaðsins Expressen að höfundur myndarinnar, Mia Engberg, fái 350 þúsund sænskar krónur frá ríkinu í styrk til gerðar stuttmyndarinnar. Er þetta meðal hæstu styrkjanna sem voru veittir í þetta sinn.

Engberg hefur áður gert mynd í þessum anda og eflaust ætti mynd hennar Selma og Soffía frá árinu 2001 vera Íslendingum kunnug. En sú mynd var hinsvegar gerð án aðkomu sænska ríkisins. Hún rekur fyrirtækið Sexy Film og er tilgangur þess að framleiða og dreifa svokölluðu jaðarklámi.