Franski áfengisframleiðandinn Pernod Ricard mun kaupa sænska ríkisáfengisframleiðandann Vin & Sprit, sem m.a. framleiðir Absolut vodka en félagið er í eigu sænska ríkisins.

Sænska ríkið fær 55 milljarða sænskra króna, jafnvirði 716,4 milljarða íslenskra króna í sinn hlut fyrir söluna.

Samkvæmt fréttavef BBC mun framleiðslan áfram vera í Svíþjóð en salan er hluti af einkavæðingaferli sænsku ríkisstjórnarinnar.

Árleg velta Vin & Sprit er um einn milljarður evra en um 2.500 manns vinna hjá fyrirtækinu en fyrirtækið er með starfssemi í 10 löndum.

Absolut vodka er að sögn BBC fjórða stærta áfengismerki heims á eftir Smirnoff vodka, Bacardi romm og Johnnie Walker viskí.

Pernod Ricard segir í tilkynningu, að mikil samlegðaráhrif muni nást vegna kaupanna innan 2-4 ára og eru þau metin á 125-150 milljónir evra árlega.