Sænska ríkisstjórnin, sem er í höndum borgaralegra afla, tók enn eitt skref í átt að frekari einkavæðingu í gær þegar tilkynnt var um sölu Vasakronan, fasteignafélags sem var í eigu ríkisins, til eins af lífeyrissjóðum landsins.

Sjóðurinn heitir AP Fastigheter og borgaði hann 41,1 milljarð sænskra króna fyrir fasteignafélagið. Tilkynnt var um söluna aðeins þrem dögum eftir að France Telecom féll frá áformum um að kaupa fjarskiptafyrirtækið TeliaSonera. Sænska ríkið á 37,3% í fjarskiptafyrirtækinu og er sá hlutur falur.

Sænska ríkisstjórnin hyggst afla 200 milljarða sænskra króna í ríkissjóð með því að selja ríkiseignir. Með þeim áformum vill ríkisstjórnin draga úr umsvifum ríkisins á markaði, minnka skuldsetningu ríkissjóðs og afla fé til þess að hægt sé að lækka skatta og ráðast í umbætur á velferðarkerfinu.

Nú þegar hefur ríkið selt hlut sinn í OMX kauphöllinni og einnig áfengisframleiðandann Vin & Sprit auk þess að minnka hlut sinn í TeliaSonera.