Íslenski seðlabankinn er í alþjóðlegum viðræðum um lausn á fjármálakreppunni sem braust út þegar Glitnir riðaði til falls og leiddi til áhlaups á gjaldmiðil landsins. Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Tryggva Pálssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, að viðræður eigi sér stað erlenda seðlabanka, rétt eins og þær hafi gert undanfarna mánuði.

Breska blaðið Sunday Telegraph sagði frá því í dag að stjórnvöld væru í þann mund að kynna um 10 milljarða evra líflínu til hagkerfisins. Samkvæmt blaðinu mun hún björgunaraðgerðin samanstanda af lánalínum frá norrænum seðlabönkum og að íslensku lífeyrissjóðirnir selji erlendar fjárfestingar og beini andvirðinu inn í íslenska hagkerfið. Tryggvi neitaði að svara fréttaveitunni aðspurður hvort að þetta væri tilfellið.

Sem kunnugt er þá gerði íslenski seðlabankinn samkomulag um gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Noregs, Danmerkur og Svíþjóð í maí að andvirði 1,5 milljarð evra. Samkvæmt Bloomberg þá hefur sænska seðlabankanum ekki borist formleg beiðni frá íslenskum yfirvöldum um að nýta þá samninga.

Fréttaveitan hefur þetta eftir Britta von Shoultz, talsmanni sænska seðlabankans en hún ítrekar að samkomulagið sé enn í gildi. Britta von Shoultz segir ennfremur að það sé ekki búið að auka verðmæti þeirra samninga sem voru gerðir í maí en að stefnusmiðir sænska seðlabankans séu í stöðugum viðræðum um þessar mundir við íslenska starfsbræður sína sem og starfsmenn annarra seðlabanka.

Í frétt Bloomberg um þá erfiðu stöðu sem er kominn upp í íslensku efnahagslífi kemur fram að leitast var svara hjá talsmönnum Evrópska seðlabankans og þess norska en þeir neituðu að svara. Ekki náðist í talsmann danska seðlabankans.