Þrátt fyrir harða utanaðkomandi gagnrýni og fyrirheit um annað leiðir nýleg könnun í ljós að sænskir lífeyrissjóðir hafa fjárfest stöðugt meir í fyrirtækjum sem tengjast framleiðslu kjarnorkuvopna og klasasprengja.

Samanlögð eign lífeyrissjóðsins Allmänna Pension (AP) í vopnaframleiðslufyrirtækum er metin á um 2 milljarða sænskra króna, eða sem jafngildir um 23 milljörðum íslenskra króna, að því er fram kemur á fréttavefnum E24.

Öfugt við t.d. norska lífeyrissjóðin Pensjonfonden hvíla engar lagalegar hömlur á því í hvers konar félögum sænskir lífeyrissjóðir mega eiga. Pensjonfonden skráir ákveðin fyrirtæki á svartan lista og fjárfestir fyrir vikið ekki í fyrirtækjum á borð við Lockheed Martin, United Technologies, Raytheon, Honeywell International, eða Northrop Grumman, þar sem öll eru þau viðriðin framleiðslu vopna- og vígtóla.

Auknar fjárfestingar sænskra lífeyrissjóða eru hins vegar umtalsverðar og má nefna að á síðari hluta liðins árs keypti Första AP-lífeyrissjóðurinn hlutabréf í öllum fimm ofangreindum félögum og jók eign sína úr 40 milljónum sænskra króna í 490 milljónir, eða sem jafngildir ríflega 5,6 milljörðum íslenskra króna, og það þrátt fyrir að gengi hlutabréfa hafi  tekið dýfu á sama tímabili. Það er áætlað að á hverju ári eyði ríki heimsins og aðrir aðilar ríflega einni billjón dollara í vígbúnað og vopn.