Sænska arkitektastofan Arkitekthuset Monarken í Stokkhólmi hlaut 1. verðlaun í samkeppni um mótun tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir lóðirnar Kirkjusand 2 og Borgartún 41, sem eru að stærstum hluta í eigu Glitnis, og gera tillögu að nýjum höfuðstöðvum fyrir Glitni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Tillagan hefur yfir sér létt og áhugavert yfirbragð. Byggingunum er raðað óreglulega á reitinn nánast eins og um sjálfbyggt umhverfi sé að ræða. Allar byggingarnar hafa sama grunnformið í mismunandi hæðum og stærðum. Stærðir bygginganna falla því vel að sínu nánasta umhverfi og stærðum bygginga í Reykjavík,? segir í umsögn dómnefndar.

Alls bárust 42 tillögur á fyrra þrepi samkeppninnar frá keppendum í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Samkeppnin var í samræmi við samkeppnisreglur Arkitektafélags Íslands og unnin í góðu samstarfi við félagið. Á fundi dómnefndar 16. nóvember síðastliðinn var ákveðið að taka 39 tillögur til dóms. Dómnefnd valdi svo sex tillögur til áframhaldandi þátttöku á síðara þrepi og var þeim skilað inn að nýju 16. febrúar.

Ákveðið var að veita öllum sex tillöguhöfundum á síðara þrepi viðurkenningu að fjárhæð 30.000 evrur eða um 2,7 milljónir króna. Þær sex tillögur sem fengu viðurkenningar voru frá Arkþing ehf. og Arkitema á Íslandi, Cityförster, Netzwerk für Architektur í Þýskalandi, Arkís ehf. á Íslandi, Arkitekthuset Monarken i Stockholm AB í Svíþjóð, ASK arkitektum á Íslandi og Architecture sp. zo.o. í Póllandi.

Í ávarpi sínu við afhendingu verðlaunanna sagði Bjarni Ármannsson meðal annars að þrátt fyrir að sex tillögum væri veitt sérstök viðurkenning væru allir þátttakendur keppninnar sigurvegarar, tillögurnar væru unnar af miklum metnaði og endurspegluðu hugmyndaauðgi höfunda sem vildu leggja sitt af mörkum við að móta umhverfi sitt og
samtíð.