Félagarnir Þór Bæring Ólafsson og Bragi Hinrik Magnússon opnuðu á dögunum ferðaskrifstofuna Komdu með. Þeir félagar hafa tæplega tveggja áratuga reynslu af störfum innan ferðaskrifstofubransans, en síðast gegndu þeir lykilhlutverkum hjá ferðaskrifstofunni Gaman Ferðum. Ferðaskrifstofan hætti rekstri fljótlega eftir að Wow air sigldi í þrot, en flugfélagið átti 49% hlut í Gaman Ferðum.

„Við erum búnir að vera lengi í þessum bransa og að byggja upp góð sambönd sem við hyggjumst nýta. Samstarfsaðilar okkar eru mjög traustir og öflugir, og það gerir okkur kleift að bjóða upp á skemmtilegar og spennandi ferðir. Við leggjum mikla áherslu á að veita persónulega og góða þjónustu," segir Þór.

Nýstofnaða ferðaskrifstofan mun meðal annars bjóða upp á fótboltaferðir, tónleikaferðir, borgarferðir, sérferðir, hópaferðir og árshátíðarferðir fyrirtækja. „Í byrjun ætlum við að leggja mesta áherslu á ferðir fyrir hina ýmsu hópa, eins og t.d. árshátíðir fyrirtækja. Það er í forgangi hjá okkur núna í byrjun að byggja upp þá deild," segir Þór.

Hvattir til að snúa aftur

Þór segir að eftir að Gaman Ferðir hafi lagt upp laupana, hafi þeir félagar verið á báðum áttum með hvað þeir ættu að taka sér næst fyrir hendur. „Við höfum báðir mjög gaman af því að reka ferðaskrifstofu og höfum kynnst mikið af skemmtilegu og góðu fólki í bransanum. Við fengum það margar hvatningar til að snúa aftur, m.a. frá fólki sem hefur verslað við okkur í gegnum tíðina, að við ákváðum að láta slag standa. Ekki ósvipað og á oft við í tilfelli stjórnmálamanna," segir hann kíminn og bætir við:

„Við vorum búnir að vera með opið í um það bil klukkutíma þegar fyrsta ferðin seldist og við erum mjög sáttir við hvernig þetta hefur farið af stað."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .