Keops Development, sem aftur er komið í eigu Landic Property, hefur enn ekki fengið grænt ljós frá bönkum og það er hörð barátta um að afla lausafjár, segir m.a. í frétt á vef Berlingske Tidende.

Þar er einnig greint frá því að tekist hafi samningar um seinkun á afhendingu dómshúss í Næstved sem Keops Development er með í byggingu. Haft er eftir Christian Melgaard, sem tekið hefur við framkvæmdastjórastöðu Keops, að byggingin verði afhent 15. desember í stað 1. október og um það hafi náðst samningar.

Melgaard segir að nú sé verið að fara ofan í saumana á málum Keops develpment til þess að fá sýn á stöðu mála. Berlingske skrifar að á sama tíma sé verið að ræða við banka, m.a. Sydbank, vegna fjármögnunar þannig að félagið geti lokið við verkefni sín.

Jafnhliða því sé verið að semja við framkvæmdamenn og byggingafyrirtæki sem hafi hætt í verkefnum vegna þess að þeir hafi ekki fengið greitt.

Melgaard dregur ekki dul á að lausafjárstaðan sé erfið og það sé flókið mál að greiða úr henni en tjáir sig ekki um það að hve miklu leyti fjármagn muni koma frá bönkum eða móðurfélaginu, Landic Property.

Í fréttinni segir að væntanlega verði tekist á um einmitt þetta atriði, þ.e. hversu mikið bankarnir og/eða Landic Property muni leggja til af nýju fé handa Keops Development svo hægt sé að halda áfram með verkefni félagsins og ljúka þeim.