Spænski knattspyrnurisinn Barcelona hefur staðið í ströngu að undanförnu við að rétta fjárhaginn af. Félagið hefur farið í umfangsmiklar efnahagslegar aðgerðir sem hafa ekki gengið hnökralaust fyrir sig. Flestar aðgerðanna fela í sér að veðsetja framtíðina fyrir árangur í dag.

Þær hafa jafnframt áhrif á launaþakið sem La Liga setur á félagið, en deildin setur öllum félögum ákveðnar skorður um launakostnað sem eru háðar tekjum þeirra síðastliðin fimm tímabil. Skuldir og launakostnaður Barcelona eru svo háar miðað við tekjurnar að La Liga hefur neytt félagið til að eyða þremur evrum í afborgun skulda fyrir hverja evru sem Barcelona fær í kassann. Samkvæmt Laporta er hlutfallið farið úr 3:1 niður í 1:1 í kjölfar efnahagsaðgerðanna.

Borga 34,5 milljónir fyrir misheppnuð bókhaldsbrögð

Í lok júní seldi félagið 10% hlut í sjónvarpsréttindum sínum á 267 milljónir evra, sama dag og fjárhagsár félagsins leið undir lok, til fjárfestingafélagsins Sixth Street. Þann 22. júlí seldi félagið 15% hlut í sjónvarpsréttindunum til sömu aðila og sagði upphæðina nema 400 milljónum evra. Því hafði félagið fengið 667 milljónir evra fyrir 25% af sjónvarpstekjum næstu 25 ára.

Barcelona seldi hins vegar ekki beint til Sixth Street með þessum tveimur sölum, eins og hefur nú komið í ljós. Barcelona og Sixth Street stofnuðu nýtt fyrirtæki þar sem Sixth Street lagði fyrir 517 milljónir evra og Barcelona 150 milljónir evra. Eini peningurinn sem skipti því um hendur voru 517 milljónirnar, á meðan 150 milljónirnar fóru einfaldlega úr einum vasa Barcelona í annan. Þessar 150 milljónir voru því búnar til í gegnum bókhaldsbrögð sem koma þeim þó stutt áleiðis þar sem La Liga neitar að skilgreina upphæðina sem nýjar tekjur.

Rúsínan í pylsuendanum er 23% fjármagnstekjuskattur sem Barcelona þarf að greiða af þessum 150 milljónum. Það þýðir í raun að félagið þarf að borga 34,5 milljónir evra til ríkisins fyrir að reyna bókhaldsbragð sem virkaði síðan ekki.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.