Óhætt er að segja að markaður með fyrirtækjaskuldabréf hafi verið örsmár hér á landi í samanburði við önnur lönd frá hruni. Uppistaða markaðarins síðustu ár hefur að mestu leyti verið sértryggð bréf bankanna, fasteignaveðtryggð bréf fasteignafélaganna auk víkjandi skuldabréfa tryggingafélaganna þó að óskráð félög hafi einnig gefið út sams konar bréf. Segja má að ákveðnum áfanga hafi verið náð fyrir markaðinn á dögunum þegar Hagar luku útgáfu á tveimur flokkum skuldabréfa en bréfin eru þau fyrstu frá hruni sem skráð rekstrarfélag í Kauphöllinni gefur út.

Annars vegar var um að ræða verðtryggðan skuldabréfaflokk á gjalddaga árið 2029 sem ber 2,8% vexti og er tryggður með veði í lykilfasteignum Haga. Töluverð umframeftirspurn var í útboðinu en samtals bárust tilboð upp á rúmlega 12,1 milljarð á meðan samþykkt tilboð jafngiltu hámarksstærð útboðsins sem var 5,5 milljarðar króna. Hins vegar var um að ræða óverðtryggðan skuldabréfaflokk á gjalddaga 2021 sem ber 4,65% vexti. Stærð flokksins nemur 2,5 milljörðum króna og er hann tryggður með veði í þróunareignum Haga.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa nýjar lánveitingar banka til fyrirtækja dregist töluvert saman á síðustu misserum eða um 52% á fyrstu átta mánuðum ársins. Háar eiginfjárkröfur, lausafjárvandi, bankaskattur og há vogunarhlutföll hafa meðal annars gert bönkunum erfitt fyrir að bjóða upp á lægri vaxtakjör samhliða vaxtalækkunum síðustu mánaða sem leiðir til þess að stærri fyrirtæki hafa í ríkari mæli farið að horfa til markaðsfjármögnunar í stað þess að fjármagna sig eingöngu á bankalánum.

Tímapunktur að myndast fyrir markaðsfjármögnun

Að sögn Magnúsar Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar, hefur markaður með fyrirtækjaskuldabréf ekki náð sér á strik frá hruni en breytingar gætu orðið á því á næstu misserum. „Þessi markaður var nokkuð líflegur fyrir hrun en hrundi svo með hlutabréfamarkaðnum. Ástæða þess að markaðurinn hefur ekki náð sér á strik felst meðal annars í því að bankarnir hafa verið vel fjármagnaðir síðustu ár auk þess sem áhættufælni hefur haft sitt að segja eins og tegund þeirra bréfa sem hafa verið gefin út lýsir.

Annar þáttur í þessu er að það var mjög áberandi í kjölfar hrunsins hvað markaður með fyrirtækjaskuldabréf óx hratt annars staðar í Evrópu og þá helst utan fjármálageirans meðan það var útgáfa þess geira sem óx hér. Ein ástæða þess er að vextir víða erlendis hafa verið lágir og fjárfestar því ekki getað fengið ákjósanlega vexti á ríkisbréfum.“

Magnús segir að sú þróun sem hafi átt sér stað erlendis sé að einhverju leyti að færast til Íslands. „Þessi þróun er að einhverju leyti að eiga sér stað hér, núna þegar grunnvextir í kerfinu eru að koma niður. Það er eins og það sé að myndast tímapunktur fyrir markaðsfjármögnun þessa daganna. Útboð Haga var ákveðinn áfangi og ég held að þetta geti orðið snúningspunktur fyrir markaðinn,“ segir Magnús.

Nánar er fjallað málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .