Áformað er að reisa heldur óvenjulega skýjakljúfa á næstu árum. Munu þeir vera þannig gerðir að hver hæð getur snúist. Útlit turnanna getur því orðið æði mismunandi.

Guardian greinir frá þessu.

Arkitektinn David Fisher, sem búsettur er á Ítalíu, vill láta byggja slíka turna í Moskvu og Dúbaí fyrir lok árs 2010. Samþykkt hefur verið að byggja 70 hæða snúningsturn í Moskvu og 80 hæða bygging býður samþykkis í Dúbaí.

Hver hæð mun snúast einn hring á minnst einum klukkutíma. Snúningshraðinn mun vera stillingaratriði en hann getur numið allt að þremur tímum. Snúningur turnanna verður knúinn með vindorku. David Fisher segist sjá mikla möguleika í þessari tækni.

Í byggingunum eru einnig áformaðar bílalyftur. Íbúar geta því lagt bílnum beint fyrir utan þó svo þeir búi á efstu hæð en bíllinn verður fluttur upp með lyftunni.

Rússneska fasteignaþróunarfyrirtækið Mirax Group stendur á bak við bygginu turnana í Moskvu en í Dúbaí er það fyrrnefndur David Fisher sem stendur fyrir byggingunni.