Sérfræðingar segja að snúningur skuldabréfa Bakkavarar í eigu Kaupþings í hlutafé í félaginu sé jákvæð þróun fyrir markaðinn og að viðskiptin eyði óvissu um fyrirtætlanir bankans með hlutinn.

Þeir benda einnig á að bankinn sé þarna að svara ákveðinni gagnrýni um eignarhald í skráðum og óskráðum íslenskum félögum. Kaupþing seldi í fyrra hlut sinn í Baugi og ákveðið hefur verið að skrá fjárfestingafélagið Exista á markað í ár.

Tilkynnt var um það í morgun að Kaupþing hefði kallað inn skuldabréf (e. convertible bonds) að virði 17,2 milljarðar króna, breytt bréfunum í hlutafé í Bakkavör og áframselt mestan hlutinn til fjárfesta á 48 krónur á hlut.

Við gjörninginn eykst beinn eignarhlutur Kaupþings í Bakkavör í 4,12% og 0,24% en fyrir viðskiptin samsvaraði skuldabréfaeignin 21,18% af heildarhlutafé Bakkavarar.

Skuldabréfin voru gefin út þegar Bakkavör keypti breska matvælafyrirtækið Katsouris Fresh Foods (KFF) árið 2001 og fjármögnuðu kaupin að hluta til.

Sérfræðingar, sem Viðskiptablaðið ræddi við, segja að sala á hlutabréfunum sé jákvæð þar sem nú dreifist eignarhaldið í Bakkvör enn frekar og að meira flot verði væntanlega á bréfunum.

Þeir segja einnig að bankinn hafi hagnast verulega á viðskiptunum, en benda á að gengi hlutabréfa Bakkavarar hafi hækkað verulega frá því að fyrirtækið keypti KFF árið 2001.