Í lok þessa árs verða að lágmarki fjórar gerðir hreinna rafmagnsbíla í boði frá Mercedes-Benz, og hátt í 20 tengiltvinnbílar. Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju – sem er með umboðið fyrir Mercedes-Benz, auk Kia og Honda – spáir sprengingu í sölu raf- og tengiltvinnbíla.

„Framboðið er að stóraukast. Ég spái því að á þessu ári verði 90% af öllum skráðum Mercedes-Benz bílum frá Öskju tengjanlegir rafbílar, samanborið við 10% í fyrra. Ástæðan er að í fyrra voru þessir bílar hreinlega ekki í boði, en nú streyma þeir til okkar hver á fætur öðrum.

Okkar viðskiptavinahópur hefur verið að bíða eftir þessum bílum. Við sjáum það bara á fjölda forpantana og þeim mikla áhuga sem ríkir á þeim. Mercedes-Benz er um þessar mundir að kynna sinn áttunda tengiltvinnbíl, GLA. Með því eru meira og minna allar gerðir Mercedes-Benz komnar í tengiltvinnútgáfu, fyrir utan Geländewagen-jeppann, en þar eru eilítið aðrar áherslur.“

Með fyrstu mörkuðum Evrópu
Fyrsti hreini rafbíll MercedesBenz, EQC sportjeppinn, kom á markað síðasta haust, og er með yfir 400 kílómetra drægni. Hann er þó aðeins sá fyrsti af mörgum. Mercedes-Benz hefur sett sér það markmið að vera komið með tíu tegundir rafbíla fyrir árslok 2022.

„Við munum kynna núna á þessu ári annan sportjeppa úr EQ-línunni sem heitir EQA. Hann verður fjórhjóladrifinn rétt eins og fyrirrennari hans, en öllu minni í sniðum, með álíka drægni, en á talsvert betra verði,“ segir Jón Trausti. Ekki sé komið endanlegt verð, en hann býst við að það verði á bilinu 6-7 milljónir króna.

„Svo snemma á næsta ári kemur þriðji jeppinn, EQB, sem verður millistærð á milli EQA og EQC, en þrátt fyrir það verður hann fyrsti rafmagnsjeppinn sem tekur sjö farþega.“

Auk jeppalínunnar verða á þessu ári kynntir tveir rafknúnir hópferðabílar. „Annars vegar EQV, sem er rafútgáfan af V-classinum, sem er stór bíll sem hefur verið mjög vinsæll í leiguakstur og aðrar hópferðir og kemur í sumar. Hinn bíllinn er einfaldari og heitir EVito og verður líka farþegabíll.

Askja er með fyrstu mörkuðum Evrópu til að fá báða þessa bíla. Þeir komast yfir 400 kílómetra og munu því henta einstaklega vel fyrir stórar fjölskyldur og í ferðaþjónustu, til dæmis til aksturs til og frá flugvellinum, og í aðrar styttri ferðir út úr bænum. Það felst gríðarlegur sparnaður í því fyrir atvinnuakstur að keyra á rafmagni, sem á endanum má búast við að skili sér til neytenda, auk þess að vera mun umhverfisvænna.“

Hræðist ekki samkeppnina
Aðspurður segist Jón Trausti ekki hræðast samkeppnina frá Tesla, sem hefur selt metfjölda bíla frá opnun hér á landi síðasta haust, og hyggst opna á forpantanir síns fyrsta sportjepplings, Model Y, innan skamms, á svipuðu verði og EQA.

„Samkeppnin er vissulega að aukast. Ég hef þó fulla trú á því að þegar þessir rafbílar frá framleiðanda á borð við Mercedes-Benz – með alla sína reynslu og þekkingu á bílaframleiðslu – koma á markað með þau gæði, þá tækni og þá hæfni sem fyrirtækið er þekkt fyrir, verði þar komin afar samkeppnishæf vara, sem eykur úrval og hag neytenda. Tesla hefur gert fína hluti, en ég er alveg viss um að það stenst enginn Mercedes-Benz snúning þegar þeirra rafbílar koma á markað af fullum þunga.“

Nánar er rætt við Jón Trausta í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .