Körfubolta- og veitingamennirnir Justin Shouse og Lýður Vignisson hyggjast færa sig um seta og opna Just Wingin' it kjúklingavængjastað í Litlatúni Garðabæ við bensínstöð Orkunnar, skammt frá verslun Hagkaups. Justin er Garðbæingum góðkunnur eftir að hafa verið lykilmaður í körfuboltaliði Stjörnunnar um árabil og síðar aðstoðarþjálfari liðsins.

Segja má að Just Wingin' it sé komið aftur heim en Justin og Lýður opnuðu vængjavagn Just Wingin' it í Ásgarði við Stjörnuheimilið í Garðabæ fyrir ári síðan. Í kjölfarið fóru þeir á flakk með vagninn um höfuðborgarsvæðið. Just Wingin' it opnaði svo í vetur í „pop-up“ húsnæði Reykjavík Street Food við Klapparstíg þar sem Skelfiskmarkaðurinn var áður til húsa. Nýlega fluttu Reykjavík Street Food og Just Wingin' it í nýtt húsnæði við Geirsgötu 9.

Lýður segir að stefnt sé á að Just Wingin' it flytji alfarið í Garðabæinn þegar húsnæðið við Litlatún verður tilbúið. Hann segir framkvæmdir séu að fara á fulla ferð og hann vonast til að veitingastaðurinn í Garðabænum verði tilbúinn fyrir sumarið. Framkvæmdirnar séu að vinda upp á sig eins og oft vill verða. „Þegar þú byrja að rífa eitthvað niður og brjóta kemur annað í ljós svo þetta er aðeins meira en við bjuggumst við og tekur aðeins lengri tíma en við bjuggumst við, sérstaklega þar sem við erum að gera þetta í fyrsta skipti.“

Lýður segir tilviljun hafa ráðið því að þeir snéru aftur í Garðabæinn. „Okkur bauðst þessi góða staðsetning svo við stukkum á það.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið í nóvember sagði Justin að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum en þá höfðu nýlega selst tíu þúsund kjúklingavængir á staðnum á einni helgi. Lýður segir síst hafi dregið úr vinsældunum síðan. „Við höfum verið með svolítið „költ“ fylgi. Við höfum lítið auglýst en orðið á götunni hefur verið reynst auglýsingin. Við erum með mjög dyggan kúnnahóp sem virðist þrá þessa vængi nánast hverja helgi."

Sjá einnig: Seldu tíu þúsund kjúklingavængi

Lýður og Justin eru svo má segja nýgræðingar í veitingageiranum þó mataráhuginn hafi lengi fylgt þeim. Þeir kynntust þegar sá síðarnefndi hóf að spila körfubolta með Snæfelli en Lýður var þá nýhættur að leika með liðinu. Lýður arfleiddi Justin af treyju númer 12 og því varð merki Just Wingin' it að kjúklingur í körfuboltatreyju númer 12.

„Í gegnum sameiginlega vinahóp fórum við að elda kjúklingavængi saman og prófa mismunandi sósur. Þegar við Justin fórum að ræða málin fannst okkur sjálfsagt að opna matarvagn með kjúklingavængjum. Þannig að við fórum af stað í þetta ævintýri og þetta hefur bara farið á flug síðan.“

Justin er frá bænum Erie í Pennsylvaníu sem er í nágrenni Buffalo borgar í New York ríki, sem Buffalo sósan og Buffalo vængir eru kennd við. „Gárungarnir segja að í mínum bæ sé annaðhvort kirkja eða bar á hverju götuhorni, og hver bar er með 10 upp í 25 mismunandi bragðtegundir af kjúklingavængjum, einn er jafnvel með 150 mismunandi tegundir,“ sagði Justin við Viðskiptablaðið í nóvember.

Lýður segir matseðilinn hafa tekið breytingum eftir því sem liðið hefur á veturinn. „Við höfum nýtt okkur þetta „pop up“ fyrirkomulag til að þróa okkur áfram áður en við flytjum inn í Garðabæinn. Við erum nokkurn veginn búin að sjá hvert við viljum stefna. Við höfum aðeins breikkað vöruúrvalið. Við erum farin að bjóða upp á blómkál, kjúklingalundir og franskar og bæta við máltíðum fyrir einstaklinga en við lögðum meiri áherslu á fjölskyldustærðir í upphafi.“