Helga Árnadóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) þann 1. desember næstkomandi. Hún tekur við af Ernu Hauksdóttur sem hefur gegnt starfinu frá stofnun SAF árið 1998. Helga sagði starfi sínu sem framkvæmdastjóri VR lausu nýlega og segir kærkomið að fá tíma núna á næstunni til að kynna sér starfsemi SAF enn frekar sem og þróun mála innan ferðaþjónustunnar áður en hún tekur formlega við.

Helga er gift Birni Víglundssyni, framkvæmdastjóra hjá Vodafone. Saman eiga þau þrjú börn á aldrinum 7-14 ára svo það er nóg um að vera á heimili Helgu og Björns í Fossvoginum. Helga er uppalin í Vesturbænum og gekk í Menntaskólann í Reykjavík.

Hún hóf flugnám eftir stúdentspróf, safnaði tímum eins og sagt er, og nam flugvélaverkfræði í eina önn í Bandaríkjunum en þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem Helga útskrifaðist með próf í við-skiptafræði árið 1997. „Ég hafði alltaf ætlað mér í flugið, en þegar á hólminn var komið sá ég að það átti ekki við mig og breytti ég því alveg um kúrs," segir Helga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.