Silvio Berlusconi hrökklaðist frá völdum í nóvember á síðasta ári. Margir spáðu þá að dagar hins 75 ára auðjöfurs sem stjórnmálamanns væru taldir þrátt fyrir að hann sjálfur segðist myndi snúa aftur.

Flokkur Berlusconi, Popolo della Liberta eða Fólk frelsisins, hefur stutt ríkisstjórn Mario Monti frá þeim tíma. Þingkosningar á Ítalíu verða næst haldnar í síðasta lagi í ársbyrjun 2013.

Berlusconi er duglegur þessa dagana að hitta blaðamenn, bæta samband sitt við fjölskyldu sína og fyrrum eiginkonu og endurnýja tengsl sína við gamla vopnabræður. Það gerir hann í skugga ásakana um mútur og kynlífshneyksli.

Meðal þeirra sem Berlusconi hefur vingast við nýju er Antonio Martino hagfræðiprófessor og fyrrum utanríkisráðherra Ítalíu. Berlusconi bað Martino að setja saman hóp hagfræðinga til að ræða efnahagsstefnu flokksins. Hópurinn hittist í siðustu viku og meðal þeirra sem sem sátu fundinn var Robert Mundell, guðfaðir evrunnar. Bendir það til þess að Berlusconi ætli sér ekki að breyta um stefnu í evru- og Evrópumálum.

En kannanir eru Berlusconi ekki hliðhollar. Þær nýjustu sýna að fylgi flokks hans yrði aðeins 18% ef kosið yrði nú og engu myndi breyta hvort Berlusconi væri í framboði eða ekki.

Eflaust munu næstu mánuðir skera úr um hvort Berlusconi á afturkvæmt. Ef ríkisstjórn Mario Monti tekst að leysa þau gríðarlegu efnahagslegu vandarmál sem landið stendur frammi fyrir þá er það útilokað.

Ef ekki þá eru auknar líkur á einhver litríkasti stjórnmálamaður Ítalíu snúi aftur.