*

laugardagur, 4. júlí 2020
Erlent 20. ágúst 2016 19:03

Snyrtivöruframleiðandi græðir á sjálfsmyndum

Aukin sjálfsmyndataka þýðir aukin sala á förðun fyrir snyrtivörufyrirtækið Estee Lauder.

Ritstjórn
Ungar stúlkur taka sjálfsmynd á Taksim torgi.
epa

Snyrtivörufyrirtækið Estee Lauder hefur notið góðs af aukinni vinsæld sjálfsmynda. Förðunarvörur fyrirtækisins seljast eins og heitar lummur og jókst sala um 9 prósent frá 30. júní í fyrra til sama tíma í ár.

Vörumerki á borð við Clinique, MAC og Bobbi Brown falla undir merki Estee Lauder og segir talskona fyrirtækisins við BBC: „Allir eru að taka myndir núna og förðun getur leyft þér að umbreyta sjálfri þér eftir skapi og aðstæðum.“

Stúlkur vilja með öðrum orðum alltaf vera tilbúnar fyrir snögga myndatöku og í heildina hefur sala Estee Lauder aukist um 4 prósent á milli ára í 11,2 milljarða dollara.

Fyrirtækið segist hafa fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir varalit og grunni og sérstaklega í Bretlandi. Salan á MAC, Bobbi Brown og Smashbox, sem fyrirtækið keypti árið 2010, hefur vaxið hraðast.

Þá spilar ráðgjöf hinna svokölluðu „vloggara“, það er að segja myndbandsbloggara, mikið inn í söluna. Slíkir aðilar eru með milljónir áskrifenda og eru duglegir að koma með alls konar ráðgjöf um hvað er heitast í förðun hverju sinni.