Þorsteinn Örn Guðmundsson er framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík) sem er samstarfsvettvangur um markaðssetningu á Reykjavík sem alþjóðlegri ráðstefnu- og viðburðaborg. Nánar tiltekið einblínir Meet in Reykjavík á svokallaða MICE-ferðamenn, þar sem MICE stendur fyrir „Meetings, Incentives, Conferences and Events“ eða fundi, hvataferðir, ráðstefnur og viðburði.

Meet in Reykjavík var stofnað í upphafi ársins 2012 og þar vinna saman bæði einkaaðilar og opinberir aðilar. Meðal aðildarfélaga má nefna Icelandair Group, Hörpu, Landsbankann, Reykjavíkurborg, Íslandsstofu, ráðstefnuskrifstofur, ferðaskrifstofur og fjölbreytta þjónustuaðila. Stofnaðilarnir voru 15 talsins en aðildarfélagar Meet in Reykjavík eru 46 í dag.

Mikilvægt að bæta blönduna

Hvernig er MICE-ferðaþjónustan frábrugðin venjulegri ferðaþjónustu?

„Þetta er frábrugðið að því leytinu til að meðal MICE-gesturinn vill ekki endilega koma á okkar háannatíma, sem skiptir okkur mjög miklu máli. Ef það eru einhverjir toppar í þessum markaði eru þeir snemma á vorin og á haustin, en að staðaldri vilja þeir koma allan ársins hring. Einu lágannartímarnir eru í raun hásumarið og jólin.“

Skiptir miklu máli að dreifa álaginu yfir árið?

„Það skiptir öllu máli. Ef við spáum í stefnumörkun er þetta gríðarlega mikilvægur markaður í bland við annan markað. Ég passa mig yfirleitt á því að taka skýrt fram að við tölum ekki fyrir því að það sé eingöngu einblínt á þennan markað, en ég tala aftur á móti fyrir því að það komi hingað ákveðið og helst vaxandi hlutfall af þessari tegund gesta til að bæta blönduna. Þetta snýst í raun bara um að blanda mismunandi gestum saman til að fá sem bestan árangur fyrir heildina, ekki bara ferðaþjónustuna heldur líka hagkerfið. Við eigum í raun eina auðlind sem er grunnurinn að ferðaþjónustunni okkar og það er náttúran. Það skiptir okkur mjög miklu máli að nýta og varðveita hana vel. Meðal MICE-gesturinn eyðir um helmingi meira á dag heldur en meðalgesturinn, hann eyðir hlutfallslega minni tíma í náttúrunni og er nánast alltaf í fylgd með fagaðila sem passar upp á umgengni hans og aðgengi að auðlindinni okkar. Þannig skilur hann meira eftir sig, hann er í betra jafnvægi við auðlindina okkar og hann dreifist betur yfir árið sem þýðir jafnari og betri rekstur í innviðunum okkar.“

Hver væru áhrifin af hlutfallslegri aukningu MICE-gesta?

„Við fengum til okkar breska MBA nemendur sem gerðu hjá okkur sérverkefni sem við gátum notað til að skoða hvaða breytingar yrðu ef við breyttum hlutföllunum. MICE-gestir eru u.þ.b. 7-8% af heildinni í dag og ef við tvöföldum það hlutfall í 14-16% hefði það í för með sér að við fengjum 5% lægri árstíðarbundinn topp en að sama skapi myndu axlirnar lyftast upp sem og lágannartímabilið. Það skapar jafnari rekstur og gæti ýtt undir enn betri nýtingu og arðsemi. Við myndum sjá u.þ.b. 4-5% minna „fótspor“ í náttúrunni okkar og 6% meiri tekjur, einungis með þessari hlutfallsbreytingu miðað við enga heildarfjölgun.“

Nánar er rætt við Þorstein í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .