Opnun Kringlunnar árið 1987 markaði upphafið að fasteignafélaginu Reitum og er félagið er enn langstærsti eigandi verslunarmiðstöðvarinnar með um 80% eignarhlut. Eignasafn Reita hefur síðan verið í stöðugri þróun en Kringlan er þó enn í dag verðmætasta eign félagins og fullyrða má að uppbygging á Kringlureitnum sé enn fremur áhugaverðasta framtíðarverkefni Reita.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita og stjórnarformaður rekstrarfélags Kringlunnar, segir rekstur verslunarmiðstöðvarinnar almennt ganga ljómandi vel og aðsóknin sé alltaf að aukast, en árið 2016 heimsóttu 5,2 milljónir gesta Kringluna. „Aðsóknin farið vaxandi undanfarin ár, sem er mjög ánægjulegt enda er það það sem skiptir mestu máli í þessum rekstri,“ segir Guðjón.

Það er nokkuð erfitt fyrir utan að komandi aðila að átta sig á rekstri Kringlunnar enda gefur Rekstrarfélag Kringlunnar ekki út eiginlega ársreikninga eins og Guðjón útskýrir nánar. „Kringlan er sérstök að því leyti að hún samanstendur ekki af einum eiganda og er rekstrarfélag Kringlunnar því í raun húsfélag og reikningar hennar því með þeim formerkjum. Í samþykktum Rekstrarfélags Kringlunnar segir einfaldlega að félagið skuli rekið á núlli. Rekstrarkostnaðurer sóttur til rekstraraðila og eigenda. Þetta fyrirkomulag er í raun arfur frá gömlum tíma, þegar Kringlan var stofnuð en þá voru ýmsir kaupmenn sem tóku þátt í því að byggja húsið upp og eignuðust sín verslunarrými um sum þeirra eru jafnvel ennþá í eigu fjölskyldunnar. Áfengisverslunin á síðan t.d sitt rými og Arion banki á sitt rými. Vegna þessa er ekki einfaldlega hægt að skoða einn ársreikning og segja: Svona gekk rekstur Kringlunnar,“ útskýrir Guðjón.

Ferli sem tekur mörg ár

Guðjón segir rekstur í Kringlunni þó almennt ganga vel og hvert einasta verslunarbil sé í útleigu. „Auðvitað er gengi verslana mismunandi á hverjum tíma fyrir sig en kannanir okkar sýna að rekstraraðilum í húsinu líður vel.“ Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á Kringlusvæðinu en þær eru jafnframt gríðarlega flóknar og segir Guðjón ferlið taka langan tíma. „Þetta verkefni er talið í árum en það er í farvegi. Við erum að vinna að stækkun, ekki bara Kringlunnar sjálfrar, heldur erum við að vinna að þróun alls svæðisins í samstarfi við Reykjavíkurborg og hefur verið stofnaður formlegur vinnuhópur um verkefnið.

Það að stækka Kringluna og þróa Kringlusvæðið snýst ekki um að stækka verslunarsvæðið, það snýst um að þróa samfélag og þetta er einfaldlega verkefni sem mun taka mörg ár, en það er hafið. Við stefnum að því að byggja íbúðir og atvinnuhúsnæði innan svæðisins og tengja það framtíðar samgöngukerfi borgarinnar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.