„Margir hópar innan ASÍ eru ekki sáttir við að háskólamenn hjá ríkinu njóti forgangs umfram aðra, hvort sem það eru læknar eða kennarar,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, í samtali við Morgunblaðið um komandi kjarasamningsviðræður. Hann segir að eftir umræddar launahækkanir sé erfitt að sannfæra félagsmenn um að stilla kröfum sínum í hóf.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að líta þurfi til fortíðar áður en gengið er til viðræðna. Hann bendir á að á níunda áratugnum hafi laun hækkað að jafnaði um 34 prósent á ári á sama tíma og verðbólgan var árlega rétt tæplega 34 prósent. „Af þessu er ljóst að þetta helst fast í hendur. Þegar upp var staðið þá hafði kaupmáttur samtals aukist um fimm prósent allan þennan áratug sem er töluvert undir meðalvexti kaupmáttar.“

Gylfi segir óðaverðbólgu hins vegar ekki vera til umræðu. „Þetta snýst ekki um verðbólgu, þetta snýst um réttláta skiptingu þjóðarauðsins. Vel getur verið að deilur um slíkt valdi verðbólgu en þá verður bara svo að vera, því almennt launafólk er ekki reiðubúið að axla eitt ábyrgð á stöðugleika á meðan aðrir fá ríflegar launahækkanir.“