Fyrirtækið var stofnað þann 13. september 1994, en skoðun ökutækja á vegum Aðalskoðunar hófst í janúar 1995 og fagnar fyrirtækið því 20 ára afmæli um þessar stundir. Eigendur Aðalskoðunar hf. í dag eru félögin Veigur ehf., Birta ehf. og Grandagarður ehf. sem eru í eigu aðila tengdra Jafeti S. Ólafssyni, Eyjólfi Árna Rafnssyni og Kristjáni Gíslasyni.

Bergur Helgason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að áratugareynsla af rekstri hafi haft mikið að segja um það hve reksturinn hefur verið stöðugur síðustu árin.

„Í ár eru 20 ár síðan Aðalskoðun hf. hóf starfsemi með opnun skoðunarstöðvar í Hafnarfirði. Nú rekur fyrirtækið fjórar skoðunarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og eina í Reykjanesbæ, auk þess sem það sinnir skoðun á þremur stöðum á landsbyggðinni í samstarfi við heimamenn."

Hann segist telja að sérstaða fyrirtækisins byggi mikið á langri og farsælli starfsemi þess og mikilli reynslu og þjónustulund starfsfólks.

„Við leggjum höfuðáherslu á þjónustu við viðskiptavini okkar á öllum atriðum sem tengjast skoðun ökutækja, skráningum og ýmsum þáttum tengdum því. Við erum lítið fyrir að vísa fyrirspurnum frá okkur en reynum frekar að vinna með viðskiptavinum að lausnum á þeirra fyrirspurnum t.d. með aðstoð við þá varðandi samskipti við ríkisstofnanir í gjaldamálum, þungaskattsálestrum o.fl. Við segjum oft varðandi starfsemi okkar að þetta snúist um svo miklu meira en bílinn.“

Nánar í sérblaði Viðskiptablaðsins um framúrskarandi fyrirtæki sem unnið var í samstarfi Creditinfo. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .