Franski bankinn Societe Generale, sem tapaði 4,9 milljörðum evra vegna óleyfilegra fjárfestinga verðbréfamiðlarans Jeromes Kerviel, tilkynnti í gær að tap bankans á fjórða ársfjórðungi í fyrra, hefði numið 3,35 milljörðum evra.

Samtals hagnaðist SocGen, annar stærsti banki Frakklands að markaðsvirði, aðeins um 947 milljónir evra á öllu árinu, sem er 82% minni hagnaður en árið 2006.

Afskriftir á fjórðungnum námu 2,6 milljörðum evra vegna taps á fjármálagjörningum með tengsl við bandaríska undirmálslánamarkaðinn. Bankinn varaði fjárfesta jafnframt við frekari afskiftum.

Hlutabréf SocGen féllu í verði um 2,3% á hlutabréfamarkaði í gær.