„Ég var að leita fjárfestingartækifæra og hafði veður af því að Bílanaust væri hugsanlega til sölu. Ég hafði samband við MP banka og það varð til þess að við fórum að skoða félagið,“ segir Lárus Blöndal Sigurðsson í samtali við vb.is. Hann hefur fram fyrir hönd tveggja fjölskyldna sem gert hafa samning um kaup á Bílanausti af olíuversluninni N1. Tilkynnt var um viðskiptin í gær.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Eins og fram kom á vb.is í gær er hann bróðir Dags Sigurðssonar , fyrrverandi landsliðsmanns í handbolta sem nú þjálfar þýska úrvalsdeildarliðið Fusche Berlin. Fjölskyldur þeirra koma að kaupunum ásamt fjárfestingarfélaginu Sundagarðar ehf, sem kaupir meirihluta og verður kjölfestufjárfestir í verkefninu.

Bjó í Lúxemborg í 12 ár

Lárus hefur starfað á fjármálamarkaði síðan árið 1996, m.a. hjá FBA og Íslandsbanka en alið manninn síðastliðin 12 ár í Lúxemborg. Þar vann hann hjá Kaupþingi og síðar Banque Havilland. Hann sneri aftur heim með fjölskyldu sinni síðastliðið sumar, ákvað að söðla um og leitaði fyrir sér á öðrum vettvangi. Hann og meðfjárfestar hans bíða nú eftir græna ljósinu frá Samkeppniseftirlitinu til að ljúka kaupum á Bílanausti.

„Við erum bjartsýn á að Bílanaust verði jafn traust og leiðandi og það hefur verið og ætlum að reka það í óbreyttri mynd,“ segir hann.