Ernu Hreinsdóttur þótti kominn tími til að breyta til eftir að hafa starfað í átta ár sem ritstjóri tímaritsins Nýs lífs og sagði því starfi sínu lausu síðasta sumar og ákvað að leita á önnur mið. Hún hefur nú opnað netverslunina Pippu ásamt Vigdísi Häsler.

„Það er aðeins rúm víka síðan við opnuðum heimasíðuna Pippa.is og hún er ennþá í mótun ef svo má segja, þetta er allt alveg splunkunýtt. Þetta er partýbúð en okkar helsta markmið er að vera með framúrskarandi og nýstárlegar partývörur fyrir öll tilefni sem eru aðeins öðruvísi en það sem áður hefur staðið til boða hér á landi. Á síðunni verður hægt að kaupa allt það flottasta fyrir partýið og hver einasta vara er valin af okkur af mikilli kostgæfni,“ segir Erna.

Þetta var bara óvart

Erna segist ekki hafa verið búin að ákveða að opna partýbúð þegar hún hætti störfum sem ritstjóri. „Þetta var nú eiginlega bara óvart.

Ég sagði upp sem ritstjóri síðasta sumar. Ég var búin að sinna starfinu í átta ár og var í raun bara búin með mitt tímabil. Það var kominn tími til að breyta til og ég ákvað bara að taka stökkið og sjá hvað myndi gerast. Þessi hugmynd kviknaði svo hjá mér og vinkonu minni, Vigdísi, í haust og við ákváðum að slá til og prófa þetta.“ segir Erna.

Hún segist hafa fundið fyrir miklum áhuga síðan hugmyndin kviknaði. „Hugmyndin að Pippu kviknaði þegar Vigdís var að undirbúa barnaafmæli og fannst úrvalið ekki nógu spennandi. Úrvalið á partývörum hefur alltaf verið mun meira erlendis og þegar maður leitaði eftir innblæstri á erlendum síðum sá maður alls konar vörur sem ekki var hægt að nálgast hér á landi. Við ákváðum því reyna að bæta úr þessu og smella bara í eina búð.“

Allt áramótaskraut seldist upp

Að sögn Ernu hafa viðtökurnar við versluninni verið framar þeirra björtustu vonum. „Við fórum í loftið rétt fyrir áramót og vorum ekki vissar um að við myndum ná inn á markaðinn í tæka tíð en það fór hins vegar svo að allt áramótaskrautið okkar seldist upp. Þetta gekk eiginlega bara of vel.“ Erna segir vöruúrvalið munu koma til með að taka miklum breytingum í takt við tískuna hverju sinni.„ Vöruúrvalið á eftir að aukast mjög mikið en við fórum mjög hægt af stað. Hugmyndin er sú að viðskiptavinir geti í framtíðinni nálgast allsherjarpakka hjá okkur til að skreyta heilu rýmin t.d. þegar á að fara að halda brúðkaup og fleira,“ útskýrir Erna.

Framleiða sína eigin vörur

Vörurnar sem seldar eru á Pippu koma hvaðanæva að úr heiminum allt frá Bretlandi til Kína. „Vörurnar koma úr öllum áttum en við veljum einfaldlega það sem okkur líst vel á hverju sinni. Á komandi misserum komum við síðan til með að láta framleiða fyrir okkur okkar eigin vörur þar sem setningar á þeim verða m.a. íslenskaðar. Okkur finnst þetta vanta en vörurnar hafa hingað til að jafnaði verið merktar með enskum texta. Við erum með fjölmargar hugmyndir fyrir framtíðina, en við ætlum meðal annars að halda úti lifandi og skemmtilegu bloggi í tengslum við síðuna þar sem við birtum alls konar hugmyndir, greinar og viðtöl við sniðugt fólk sem gefur góð ráð. Markmiðið er þannig að skapa vettvang þar sem þeir sem eru að undirbúa samkvæmi geta nálgast hugmyndir og innblástur,“ segir Erna að lokum.