Soffía Vagnsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Bolungarvíkur, verður í fimmta sæti á lista Bjartrar framtíðar í NV-kjördæmi í Alþingiskosningunum í vor.

Soffía Vagnsdóttir.
Soffía Vagnsdóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fram kemur í tilkynningu frá flokknum að Soffía hefur undanfarin sex ár starfað sem skólastjóri Grunnskóla Bolungarvíkur en verið er í námsleyfi í vetur og lýkur hún nú meistaranámi í Menningarstjórnun og Evrópufræðum frá Háskólanum á Bifröst. Hún er borinn og barnfæddur Bolvíkingur, úr sex systkina hópi Vagns Hrólfssonar sjómanns og Birnu Pálsdóttur kaupmanns.

Soffía sat í Bæjarstjórn Bolungarvíkur í 8 ár og er mikil áhugamanneskja um menningarstarf og nýsköpun. Hún hefur bæði komið að ferðaþjónustu og menningarviðburðum á sínu heimasvæði en helstu áhugamál hennar eru samfélagmál, málefni barna og ungs fólks, málefni landsbyggðarinnar og stóraukið samstarf milli ólíkra atvinnugreina með þróun og nýsköpun í huga. Hún trúir á jákvæðni, kærleika, heiðarleika og virðingu í samskiptum fólks. Soffía er gift Roland Smelt tölvunarfræðingi, barnahópurinn telur fimm og barnabörnin eru sex.

Uppstillinganefnd á vegum Bjartrar framtíðar tilkynnti efstu sæti lista í öllum kjördæmum í desember í fyrra. Hún vinnur nú að því að klára listana. Það gengur vel og eru niðurstöður væntanlegar fljótlega, að því er segir í tilkynningu.