Hinn 14. febrúar 2013 kom saman einn milljarður manna í 207 löndum og dansaði í tilefni af átakinu „Milljarður rís“. Tilgangurinn með átakinu er að dansa af krafti fyrir allar þær konur og stúlkur sem hafa upplifað ofbeldi og sýna í verki að fólki stendur ekki á sama. Á Íslandi kom fólk saman í Hörpu þar sem 2.100 menn, konur og börn dönsuðu á þessum degi.

Harpa
Harpa
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

UN Women, í samstarfi við tónlistarhátíðina Sónar og Lunchbeat, ætla að endurtaka leikinn og freista þess að fá 3.000 manns til að taka þátt í átakinu í dag klukkan tólf í Hörpu. UN Women skora á fyrirtæki, stofnanir og skóla til að hvetja starfsfólk og nemendur til að mæta í Hörpu og sýna samstöðu. Ókeypis verður að leggja í Hörpu á meðan viðburðurinn stendur yfir en fólk er hvatt til að mæta snemma.

Soffía Sigurgeirsdóttir, framkvæmdastýra UN Women, segir að alþjóðlegur viðburður líkt og „Milljarður rís“ hafi mikið að segja hvað varðar almenna vitundarvakningu á stöðu kvenna og stúlkna um allan heim: „Einn milljarður endurspeglar tölu þeirra kvenna sem verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Það er gríðarlega mikill fjöldi en staðreyndin er sú að ein af hverjum þremur konum upplifir ofbeldi á sinni ævi. Þetta snertir mjög marga og svona viðburður er mikill stuðningur fyrir þolendur um heim allan,“ segir Soffía.

Hún bendir jafnframt á að átakið sé viss þrýstingur á stjórnvöld í hverju landi fyrir sig. „Með aukinni umræðu og með því að fleiri þolendur stíga fram og segi sína sögu er líklegra að stjórnvöld horfist í augu við alvarleika kynbundins ofbeldis, sem leiðir til þess að löggjöf verði hert eða að ný lög verði sett. Ofbeldi gagnvart konum á sér stað í öllum löndum heims án tillits til stéttar eða stöðu. Í Evrópu eru helstu dánarorsakir kvenna á aldrinum 6-44 ára heimilisofbeldi, krabbamein og bílslys og við erum að tala um í þessari röð,“ segir Soffía.

Soffía segist bjartsýn á að fá 3.000 Íslendinga til að taka þátt í dansinum í dag. „Við munum einnig dansa í Hofi á Akureyri, í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði og Menntaskólanum á Ísafirði. Viðbrögðin í fyrra voru framar okkar björtustu vonum en ríflega 2.100 manns komu í Hörpu og dönsuðu og síðan var dansað á landsbyggðinni. Það var mögnuð stemning og gleði í Hörpu og við Íslendingar tókum þátt í að láta jörðina hristast ásamt milljarði manna í 207 löndum sem dansaði af lífi og sál,“ segir Soffía.

  • Milljarður rís
  • Ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni.
  • Yfir 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert.
  • Helsta dánarorsök evrópskra kvenna á aldrinum 16­-44 ára er heimilisofbeldi.
  • Konu er nauðgað á 26 sekúndna fresti í Suður­Afríku.
  • Í Brasilíu deyja 10 konur daglega, eingöngu vegna heimilisofbeldis.

Nánar er rætt við Soffíu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .