„Snjallsímar hafa umbylt hegðun fólks frá því fyrsti iPhone-síminn kom á markað árið 2007. Þeir færa fólki Netið beint í vasann og leysa verkefni sem áður voru ekki möguleg,“ segir Soffía Þórðardóttir, hópstjóri veflausna hjá hugbúnaðarfyrirtækinu TM Software. Soffía býst við að verslun í gegnum smátæki eigi eftir að aukast á næstu árum.

Soffía telur að þrátt fyrir stökkið í tæknigeiranum þá ofmeti fyrirtæki smáforrit (öpp). „Í ljósi þeirrar snjallsímabyltingar sem við upplifum er mikilvægt fyrir fyrirtæki að velja réttu lausnina. Í ljós hefur komið að fjöldi þeirra smáforrita sem eru sótt og aðeins notuð einu sinni hefur stórvaxið. Gæði smáforritana og hugsanlega þau verkefni sem leysa á með tilteknum smáforritum eru í mörgum tilfellum ekki í takt við kröfur markaðarins. Það er gott fyrir fyrirtæki að skilja hvenær hentar að vera með app og hvenær er betra og hagkvæmara að bjóða frekar upp á veflausn til að leysa tiltekin verkefni,“ segir hún.

Soffía heldur erindi um snjallsímabyltinguna og smáforritin á 20 ára afmælisráðstefnu Nýherja sem verður haldin á morgun.

Nánar má lesa um ráðstefnuna hér