*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 9. febrúar 2019 19:01

Söfnuðu skuldum óáreittir

Rúm 20 ár tók að skipta þrotabúi Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. eftir yfir 100 milljóna gjaldþrot.

Júlíus Þór Halldórsson
Júlíus P. Guðjónsson ehf. hélt áfram innflutningi og heildsölu áfengis án þess að standa skil á áfengisgjaldi í yfir ár vegna galla í innheimtukerfi tollstjóra.
Haraldur Guðjónsson

Þann 12. október 1998 var bú Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Tollstjóra. Félagið skuldaði þá um 110 milljónir króna – sem jafngildir 277 milljónum á verðlagi dagsins í dag – í vangoldin áfengisgjöld.

Júlíus P. Guðjónsson ehf. var stofnað árið 1988 af stórkaupmanninum Júlíusi Petersen Guðjónssyni. Félagið flutti inn og seldi áfengi í heildsölu, en hafði, þegar það var tekið til gjaldþrotaskipta, ekki staðið skil á áfengisgjaldi til ríkisins í yfir ár.

Gallar í innheimtukerfi ríkisins
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins um málið í ársbyrjun 1999 voru gallar í innheimtukerfi aðflutningsgjalda ástæða þess að félagið gat haldið áfram rekstri óáreitt af tollstjóra svo lengi, án þess að standa skil á gjöldunum, á meðan skuldin safnaðist upp.

Þannig var málum háttað að félagið var með lögheimili í Reykjavík og þar fór sjálfur innflutningurinn fram. Það hafði hins vegar starfsaðstöðu í Kópavogi og þar voru því tollafgreiðslur skráðar. Eitthvað virðist samskiptum opinberra aðila hafa verið ábótavant, því þetta varð til þess að fyrirtækið var skráð skuldlaust hjá tollstjóraembættinu í Reykjavík allan þann tíma sem vangoldin gjöldin söfnuðust fyrir í Kópavogi. Var því ekkert aðhafst í málinu fyrr en það endaði á borði fjármálaráðuneytisins, sem skipaði tollstjóra samstundis að innheimta skuldina. Í kjölfarið var gert árangurslaust fjárnám, og í framhaldinu krafist gjaldþrotaskipta.

Eignir seldar en greiðslur stóðu á sér
Heildarkröfur í búið námu um 137 milljónum króna, tæpar 350 milljónir í dag, en lítið fékkst upp í þær. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafði félagið selt flestar eignir sínar til félags að nafni Icemex ehf. fyrir gjaldþrotaskiptin, og fengið greitt fyrir þær með um 20 milljóna króna skuldabréfi. Það félag var í eigu sonar Júlíusar, Gunnars, sem hafði verið framkvæmdastjóri Júlíusar P. Guðjónssonar, en eftir söluna og gjaldþrot Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. hættu greiðslur af skuldabréfinu að berast.

Icemex var svo sjálft tekið til gjaldþrotaskipta í október 2001, vegna ótengds máls, og þrotabú Júlíusar P. Guðjónssonar gerði í framhaldinu kröfu á hendur þrotabúi Icemex vegna skuldarinnar. Skiptum í þrotabúi Júlíusar P. Guðjónssonar lauk svo í febrúarlok 2003 með úthlutun úr búinu, en þá hafði ekkert fengist greitt upp í skuld Icemex.

Árið 2004 vann þrotabú Icemex hins vegar dómsmál gegn Vífilfelli, vegna samnings sem gerður hafði verið um kaup þess síðarnefnda á umboðum af þeim fyrrnefnda, sem ekki var staðið við. Búinu voru dæmdar samtals um 32 milljónir króna, og í kjölfarið greiddi það þrotabúi Júlíusar P. um 5,4 milljónir upp í skuldina, en árið 2007 lauk svo skiptum á Icemex ehf., sem greiddi búi Júlíusar óverulega upphæð til viðbótar.

Undir lok árs 2012 boðaði skiptastjóri Júlíusar P. til skiptafundar til að úthluta þeim fjármunum sem safnast höfðu eftir upphaflegu skiptalokin tæpum áratug fyrr. Þeim skiptum lauk svo loks með viðbótarúthlutun upp á rúmar 5,5 milljónir króna þann 27. desember síðastliðinn, rúmum 20 árum eftir að félagið var fyrst tekið til gjaldþrotaskipta.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.