Japanska eignarhaldsfélagið SoftBank hefur varað við því að bankinn muni mögulega ekki greiða út arð næsta fjárhagsárið. Rekstrartap SoftBank á liðnu ári nam 13 milljörðum dollara eða um 1.900 milljörðum íslenskra króna. Financial Times segir frá.

Í tilkynningu dagsins kom einnig fram að Jack Ma, stofnandi Alibaba, mun hætta í stjórn SoftBank eftir 13 ára setu. Ma er því síðasta stóra nafnið sem stígur niður úr stjórn félagsins eftir að Tadashi Yanai, stofnandi Uniqlo, hætti í lok síðasta árs.

Tilkynningin kemur í kjölfar 18 milljarða dollara taps Vision Fund tæknisjóðsins sem SoftBank rekur. Sjóðurinn sem stofnaður var árið 2017 hefur fjárfest milljörðum dala í 88 sprotafyrirtækjum. Heildartap sjóðsins frá stofnun nemur um 4,8 milljörðum dollara.

Sjá einnig: SoftBank hætt við að bjarga WeWork

Heimsfaraldurinn hefur bitið hressilega í fjárfestingar SoftBank í leigubílafélögum og hótelkeðjum á borð við Uber, Didi og Oyo. Fyrr á árinu hafði eignarhaldsfélagið gefist upp á fasteignafélaginu WeWork, einni stærstu fjárfestingu SoftBank.

Hlutabréf í SoftBank hafa hækkað um 72% frá því að hafa náð fjögurra ára lágmarki þann 19. mars síðastliðinn eftir að félagið tilkynnti um 680 milljarða íslenskra kóna kaup á eigin bréfum næsta árið ásamt rúmlega sex þúsund milljarða króna sölu á eignum.