*

laugardagur, 24. október 2020
Erlent 21. mars 2020 15:10

SoftBank hætt við að bjarga WeWork

Eignarhaldsfélagið japanska telur sig ekki lengur bundið af samningnum vegna rannsókna yfirvalda á WeWork.

Ritstjórn
Adam Neumann, stofnandi og fyrrum forstjóri WeWork.
Aðsend mynd

Japanska eignarhaldsfélagið SoftBank hefur hætt við fyrirætlanir um að koma fasteignafélaginu WeWork til bjargar.

Virði WeWork hefur hrunið í kjölfar hneykslismála sem tengjast fyrrverandi framkvæmdastjóra þess, Adam Neumann, en SoftBank telur sig ekki lengur bundið af 3 milljarða dala samningi um kaup á hlutabréfum af núverandi eigendum, vegna rannsókna ýmissa yfirvalda á borð við dómsmálaráðuneytið og verðbréfaeftirlitið á starfsemi félagsins.

Meðal þeirra fjárfesta sem til stóð að SoftBank keypti af er Neumann sjálfur, sem hafði rétt samkvæmt samningi síðasta hausts á að selja eigin hlutabréf fyrir allt að tæpan milljarð dala.

Ákvörðunin hefur þó ekki áhrif á 5 milljarða dala innspýtingu sem fasteignafélagið fékk frá SoftBank, meðal annars í formi hlutafjáraukningar, sem umfjöllun Wall Street Journal segir munu reynast lífsnauðsynleg á komandi misserum vegna versnandi horfa í tengslum við heimsfaraldur Covid-19.

Stikkorð: SoftBank WeWork Adam Neumann