Japanska eignarhaldsfélagið Softbank tapaði 23,4 milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ársfjórðungi, eða sem nemur meira en þrjú þúsund milljörðum króna. Hinn svokallaði Vision Fund sjóður á vegum félagsins tapaði þar af 21,6 milljörðum dala á fjórðungnum. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Tapið endurspeglar lækkun hlutabréfa í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum á undanförnum misserum. Gengi bréfa í Uber og Doordash féll um meira en 40% á fjórðungnum, en Softbank hafði varið miklum fjármunum í fyrirtækin. Fyrirtækið sagði í yfirlýsingu að Vision Fund 1 sjóðurinn hefði nú selt sig úr Uber.

SoftBank varði miklum fjármunum í fjárfestingar í sprotafyrirtækjum í tæknigeiranum á síðasta ári. Fóru þá 38 milljarðar dala úr Vision Fund 2 sjóðnum í 183 mismunandi tæknifyrirtæki á síðasta ári.

Forstjóri félagsins, Masayoshi Son, viðurkennir að hann hafi farið fram úr sér á tímabili, þegar virði tæknifyrirtækja var í hæstu hæðum. Hann segist sjá eftir fjárfestingunum og skammast sín fyrir að hafa farið fram úr sér.