Fjármálastjóri kínverska fyrirtækisins Huawei „ætti ekki að vera gísl“ í viðræðum Kína og Bandaríkjanna segir lögfræðingur Meng Wanzhou, dóttur stofnanda fyrirtækisins, en hún var handtekin í Vancouver 1. desember síðastliðinn. Ákæran á hendur henni var birt nú skömmu fyrir mikilvægar viðræður um viðskipti Kína og Bandaríkjanna.

Bíður hún nú framsals til Bandaríkjanna vegna ásakana um að hafa brotið á refsiaðgerðum Bandaríkjanna gagnvart Íran með því að hafa stundað viðskipti í gegnum dótturfélag við ríkið. Dómsmálaráðuneytið hefur jafnframt ákært fjarskiptafyrirtækið um að stela róbótatækni frá bandaríska fyrirtækinu T-Mobile US. Huawei segist hafa gert dómsátt um það mál árið 2017.

Lögfræðingurinn tengir málið tollastríði

Huawei neitar ásökunum um að það, né dótturfélag þess, hafi brotið á viðskiptabanninu, og það viti ekki til þess að Meng hafi gert nokkuð rangt. Lögfræðingur hennar, Reid Weingarten, hjá lögfræðifyrirtækinu Steptoe & Johnson benti á flókin samskipti Kína og Bandaríkjanna um þessar mundir, og er hann þar væntanlega að vísa í tolladeilur ríkjanna, sem að hluta til snúast um höfundarrétt á bandarískri tækni.

„Skjólstæðingur okkar, Sabrina Meng, ætti ekki að vera peð eða gísl í þessum samskiptum. Frú Meng er heiðarleg og heiðvirð viðskiptakona sem hefur aldrei eytt sekúndu af hennar lífi í samsæri um að brjóta nokkur bandarísk lög, þar með talið viðskiptabannið við Íran,“ sagði lögfræðingurinn.

Kínverjar handtóku tvo í kjölfarið

Fljótlega eftir að kanadískir lögreglumenn handtóku Meng, tóku kínversk yfirvöld til fanga tvo kanadíska ríkisborgara í Kína á grundvelli þjóðaröryggis. Kínverska utanríkisráðuneytið hefur hvatt bandarísk stjórnvöld til að hætta að lýsa eftir henni og stöðva þvingunaraðgerðir gegn kínverskum fyrirtækjum.

Dómsmálaráðuneytið í Kanada hefur 30 daga í kjölfar framsalsbeiðni Bandaríkjanna til að heimila að málið fari í ferli, en ef að því verður, myndi mál hennar fara fyrir dómstól í Bresku Kólumbíu sem gæti verið margra vikna eða mánaðaferli.

Talið er mögulegt að málið geti valdið uppnámi í viðræðum milli stjórnvalda í Beijing og Washington í vikunni að því er Reuters greinir frá. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í Desember að hann gæti skipt sér af málum Meng ef það myndi hafa áhrif á þjóðaröryggi eða styðja við að samkomulag næðist við Kína. Viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Wilbur Ross segir ásakanirnar þó algerlega aðskildar frá viðskiptadeilum ríkjanna.