Útgerðarmaðurinn Magnús Kristinsson var aðaleigandi Berg-Hugins fyrir hrun með 77% hlut. Hann var umsvifamikill allt frá síðustu aldamótum og fram yfir hrun. Í kjölfar falls fjárfestingarfélagsins Gnúps í byrjun árs 2008, sem hann átti stóran hlut í ásamt öðrum, féll fyrirtækjaveldi hans. Þar á meðal voru Domino's, verslunin Mótormax og Toyotaumboðið. Þá keypti eitt félaga Magnúsar stóran hlut í Landsbankanum rétt áður en bankinn fór á hliðina haustið 2008.

Magnús átti 77% hlut í Bergi-Huginn á móti Birki bróður sínum áður en allt fór á hliðina. Árið 2009 eignaðist Landsbankinn 45% hlut í félaginu og var hlutur Birkis færður yfir á Ragnhildi Gísladóttur söngkonu sem löngum hefur verið kennd við Grýlurnar.

Eins og fram kom fyrr í dag hefur Síldarvinnslan samið um kaup á öllu hlutafé Bergs-Hugins. Ekkert liggur fyrir um hvað Síldarvinnslan greiðir fyrir útgerðarfyrirtækið.

Uppgjör Síldarvinnslunnar liggur ekki fyrir. Meirihlutaeigandi útgerðarinnar er Samherji sem skráður er fyrir tæpum 45% hlut.

Sögðu vafa um rekstrarhæfið

Í ábendingarmálsgrein endurskoðenda við uppgjör Bergs-Hugins fyrir árið 2011 er vakin athygli á tveimur atriðum sem geti haft áhrif á rekstrarhæfi Bergs-Hugins. Annars vegar er það ágreiningur útgerðarinnar og Glitnis banka um skuldbindingar vegna framvirkra gjaldmiðlasamninga. Hins vegar er bent á að óvissa ríki um rekstarhæfi félagsins vegna þeirra miklu áhrifa sem gengisbreytingar íslensku krónunnar hafa haft á fjárhagsstöðu útgerðinnar.

Fram kemur í síðasta uppgjöri Bergs-Huginn að afkoma félagsins hefur versnað nokkuð. Hagnaður útgerðarinnar nam 571,8 milljónum króna í fyrra samanborið við 746 milljónir króna árið 2010. Þá drógust tekjur saman.

Eignir Bergs-Hugins námu 4.461 milljónum króna í fyrra. Á sama tíma var eigið fé útgerðarinnar neikvætt um rúma 2,8 milljarða króna. Skuldir voru að nær öllu leyti í erlendri mynt og námu þær 7,3 milljörðum króna um síðustu áramót. Þær tekur Síldarvinnslan í Neskaupsstað yfir og mun vinna á, eins og fram kemur í tilkynningu um kaupin á útgerðinni.