Kristrún Frostadóttir og Davíð Stefánsson, sem unnu að gerð skýrslu Frosta Sigurjónssonar um valkosti við brotaforðakerfi, voru ekki sátt við þær breytingar sem Frosti gerði á skýrsludrögum og sögðu sig úr starfshópnum í síðasta mánuði. Kristrún sendi í þessu frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

„Vegna fyrirspurnar fjölmiðla um skýrslu Frosta Sigurjónssonar um valkosti við brotaforðakerfi og ástæður þess að við Davíð Stefánsson erum ekki skrifuð fyrir skýrslunni vil ég taka fram eftirfarandi:

Ég tók að mér að taka saman skýrslu um valkosti við brotaforðakerfi að höfðu samráði við starfshópinn sem Frosti Sigurjónsson, formaður hópsins, ég og Davíð Stefánsson vorum skipuð í af forsætisráðherra í byrjun síðasta árs. Var áætlað að vinnan tæki um sex mánuði. Þegar samningurinn rann út í byrjun ágúst 2014 var skýrslan ekki endanlega frágengin. Efnislega töldum við Davíð þó litla vinnu vanta upp á, einkum þurfti að lagfæra uppsetningu og skipulag.

Lagt var til við formann hópsins að ráðinn yrði starfsmaður í stað mín þar sem ég var á leið í nám erlendis. Formaðurinn tók hins vegar þá ákvörðun að slíkt væri óþarfi og að hann myndi sjálfur ganga frá skýrslunni og senda okkur til skoðunar áður en hún yrði gefin út.

Í byrjun febrúar sl. sendi formaðurinn okkur skýrsluna eftir að hann hafði farið höndum um ágústútgáfuna. Ljóst var að hann hafði gert efnislegar breytingar á skýrslunni sem við gátum ekki sætt okkur við. Þar sem við töldum að ekki myndi nást samstaða um niðurstöðu og efnistök skýrslunnar í kjölfar þessara breytinga tókum við Davíð þá ákvörðun að segja okkur úr hópnum í síðasta mánuði.“