Ríkissjóður gaf út nýjan verðtryggðan skuldabréfaflokk í lok nóvember sl., RIKS 26, og ber hann 1,5% vexti. Þetta eru hagstæðustu raunvaxtakjör sem ríkissjóður hefur nokkru sinni fengið á innlendri lántöku. Þessi niðurstaða endurspeglar traust á ríkissjóði og grundvallast það á góðum árangri í ríkisfjármálum og festu í stjórn opinberra fjármála. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjórnarráðinu .

Lánsfjárþörf ríkissjóðs hefur minnkað til muna síðustu misseri og verulega hefur dregið úr útgáfu ríkisbréfa. Á tímabili fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að nettó útgáfa verði að jafnaði neikvæð um 30-40 ma.kr. á ári. Bætt lánskjör þýða að óbreyttu lægri vaxtakostnað ríkissjóðs af teknum lánum sem aftur hefur jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs. Síðustu verðtryggðu flokkar ríkisbréfa sem ríkissjóður gaf út á árunum 2010 - 2012 bera 3% - 3,8% vexti.

Ávöxtunarkrafa skráðra verðtryggðra skuldabréfa hefur farið lækkandi síðustu misseri sem skýrist að hluta til af minna framboði af slíkum bréfum á markaði. Íbúðalánasjóður hefur ekki gefið út ný bréf síðan á árinu 2012, en sjóðurinn var langstærsti útgefandi verðtryggðra bréfa á markaði á sínum tíma. Húsnæðiskaupendur hafa í auknum mæli leitað til lífeyrissjóða eftir fjármögnun, en lán sjóðanna eru ekki fjármögnuð á markaði heldur af ráðstöfunarfé sjóðanna.

Þá hefur eftirspurn eftir verðtryggðum skuldabréfum farið vaxandi, fjárfestar leita í auknum mæli í verðtryggð bréf, eins og um þessar mundir, þegar væntingar eru um vaxandi verðbólgu og mikil óvissa er um hvernig verðbólgan gæti þróast.

Þrátt fyrir aukna útgáfu verðtryggðra ríkisbréfa hefur dregið úr verðbólguáhættu ríkissjóðs með útgáfu vaxtaskiptasamninga. Áfram verður unnið að því að draga úr verðtryggingarmisvægi með slíkum samningum samhliða útgáfu á RIKS 26. Í apríl 2021 er á gjalddaga stór flokkur verðtryggðra bréfa RIKS 21, útistandandi nafnverð ásamt verðbótum nemur um 77 ma.kr.