„Dyrnar verða bara opnaðar klukkan 12 og við byrjum að steikja hamborgara eins og það sé hreinlega að detta úr tísku. Þetta eru svona amerísk týpa af hamborgurum og erum við búin að hafa þónokkuð fyrir því að finna réttu kjötblönduna og svo verður brauðið allt handgert,“ segir Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður spurður hvort eitthvað verði gert í tilefni þess að Hagavagninn fornfrægi verður opnaður á ný við Vesturbæjarlaugina á morgun.

„Við leggjum upp með nýtt þema á gömlum grunni, með ákveðinni virðingu fyrir því sem þarna var gert og fyrir hráefninu sem við notum. Þetta var upphaflega pulsuvagn sem svo var orðinn að pulsu- og hamborgarasjoppu sem var meira að segja með steikta rauðsprettu og ýmislegt. Við ætlum hins vegar, auk kjúklingavængja, að vera bara með hamborgara og vanda okkur sjúklega mikið við þá. Þetta verður meira svona eins og þú hefðir farið á amerískan diner fyrir 50 árum síðan, þó þannig að hægt er að fá vegan útgáfu af öllum þremur hamborgurunum sem við bjóðum upp á.

Það er klassískur bandarískur ostborgari með bæði pikluðum lauk og gúrkum, sinnepi og majónesi. Síðan borgari með rauðu hamborgararelish og karamelliseruðum lauk, sinnepi og majónesi, og svo loks einn hefðundinn íslenskari með iceberg, tómat, sinnepi, majónesi og tómatssósu.“

Ólafur er þekktur úr sjónvarpi og hefur tekið þátt í að stofna marga veitingastaði m.a. Dill, fyrsta Michelin stjörnu veitingastað borgarinnar. Með honum í endurreisn Hagavagnsins eru rapparinn Emmsjé Gauti, og hjónin Rakel Þórhallsdóttir og Jóhann Guðlaugsson.

„Ég er búinn að lesa mér heilmikið til um sögu hamborgarans og borða töluvert af þeim til að geta búið til þann besta. Við erum búin að eyða löngum stundum með slátraranum að finna rétta kjötið, sem við tökum af bringunni og rifjunum og réttu fituna sem kemur af hnakkanum,“ segir Ólafur en upphaflega var ætlunin að halda gamla Hagavagninum.

„Þegar við fórum að hreyfa við húsinu kom í ljós að það var því miður alveg ónýtt. En við reynum að nýta ýmislegt úr því gamla, auglýsingar og svona. Svo erum við með skiltið sem var á toppnum uppi á vegg hjá okkur og svo fær gula sjónvarpið heiðurssess.

Það eru ekki mörg sæti hérna inni, en þetta getur orðið mjög kósí eftir góða sundferð og svo verður örugglega gott geim þarna á túninu í sumar. Verðin eru 1.190 kr. fyrir borgara og 1.690 kr. fyrir máltíð með frönskum og kók og svo er hægt að uppfæra í ostafranskar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .