Í gær urðu engin viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri ef frá eru talin ein viðskipti Seðlabankans um morguninn sem voru liður í reglulegum gjaldeyriskaupum bankans. Jafn líflaus dagur á gjaldeyrismarkaði hefur ekki verið síðan 28. ágúst 2002 en þá leið dagurinn einnig án viðskipta. Kyrrstaðan er í takti við þróun síðustu mánaða þar sem umtalsvert hefur dregið úr veltu á gjaldeyrismarkaðinum. Þannig hefur meðalveltan verið 3,4 milljarðar króna á dag það sem af er ári en á sama tímabili í fyrra var hún 4,8 milljarðar.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að veltan það sem af er ári hefur því verið rétt ríflega tveir þriðju hlutar þess sem hún var á sama tímabili í fyrra. Þessu til viðbótar hefur flökt krónunnar verið umtalsvert minna það sem af er þessu ári samanborið við árið í fyrra. Reyndar hefur flökt krónunnar ekki mælst jafn lítið yfir jafn langan tíma frá því að krónan var sett á flot snemma árs 2001. Gengi krónunnar hefur verið að sveiflast á fremur þröngu bili og hefur á þann mælikvarða aukinn stöðugleiki einkennt gengisþróunina. Þetta er af hinu góða og til þess fallið að að skapa innlendu efnahagslífi hagstæðari skilyrði vaxtar.