*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 9. nóvember 2017 12:05

„Sögur af uppgjöf Pírata eru uppspuni“

Þingmaður Pírata segist ekki hafa gefið upp stefnumálin í stjórnarmyndunarviðræðunum heldur verið samvinnuþýð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata segir það rangt að flokkurinn hafi verið búinn að gefa eftir öll sín helstu stefnumál í viðræðunum við Framsókn og hina vinstriflokkana sem upp úr slitnaði í byrjun vikunnar.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um segir þingmaður Framsóknarflokksins hvort tveggja Pírata sem og Samfylkinguna hafa verið búin að gefa upp öll sín stefnumál í viðræðunum í von um að fá sæti í ríkisstjórn.

Þetta segir Þórhildur Sunna, sem ásamt Smára McCarthy voru fulltrúar Pírata í viðræðunum, vera alrangt. „Sögur af uppgjöf Pírata eru uppspuni frá rótum,“ segir Þórhildur Sunna á facebook síðu sinni.

„Við vorum vissulega lausnamiðuð og samvinnuþýð í þessum samningaviðræðum enda byggja gildi Pírata á vönduðum vinnubrögðum og gagnkvæmri virðingu en því skal haldið rækilega til haga að þessar viðræður strönduðu ekki á málefnum. 

Við höfðum náð góðri sátt um okkar helstu mál og er stjórnarskráin þar með talin líkt og kom fram á sameiginlegum blaðamannafundi formannanna fjögurra (og formannsígilda) þegar viðræðum var slitið.“