*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 6. júní 2020 14:05

Sókn er besta vörnin

Framkvæmdastjóri Nox Medical fagnar ákvörðun stjórnvalda að hækka endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar.

Sveinn Ólafur Melsted
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, segir að ákvörðun Alþingis um að hækka endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar sýni vilja stjórnvalda til að sækja fram og búa til framtíðarstoðir undir hagkerfið.
Gígja Einarsdóttir

Meginþunginn í okkar starfsemi er fjárfesting í rannsóknum og þróun tæknilausna sem skila tekjustraumi í framtíðinni. Því er sérstaklega ánægjulegt að stjórnvöld hafi nýlega samþykkt lög um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs þar sem sérstaklega er litið til aðgerða sem hvetja til fjárfestinga í nýsköpun og þróun. Þessar aðgerðir skipta miklu máli fyrir öll fyrirtæki sem leggja stund á nýsköpun," segir Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, um þá ákvörðun Alþingis að hækka endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar úr 20% í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Að auki mun þak endurgreiðslu hækka úr 600 milljónum í 1,1 milljarð króna og verður endurgreiðsluhlutfall til stærri fyrirtækja hækkað upp í 25%.

Pétur segir að með þessu hafi stjórnvöld sýnt í verki mikinn kjark og skilning á mikilvægi þess að blása til sóknar í stað þess að draga seglin saman og pakka í vörn, líkt og oft sé tilhneiging til að gera þegar kreppir að.

„Það er alls ekki sjálfgefið að stjórnvöld skuli sjá þessi tækifæri og því er sérstaklega ánægjulegt að það sé þverpólitísk sátt um þessa aðgerð. Við, rétt eins og mörg önnur fyrirtæki, lentum í miklum hremmingum vegna COVID-19. Eftirspurn eftir vörum okkar nánast stöðvaðist, enda enginn að leggjast inn á sjúkrahús í svefnrannsóknir meðan faraldurinn gengur yfir og útgöngubann ríkir á flestum okkar markaða. Eftir að faraldurinn skall á dróst eftirspurn eftir vörum okkar því saman um 70-80% á nánast einni nóttu."

Hlutabætur freistandi en ekki réttur kostur

Pétur viðurkennir að það hafi í fyrstu verið mjög freistandi, við þessi fordæmalausu skilyrði, að nýta hlutabótaleiðina til þess að brenna ekki upp sjóði fyrirtækisins. Stjórnendur félagsins hafi þó ákveðið að gera það ekki, heldur freista þess að eiga samtal við stjórnvöld um útfærslu á áhrifaríkari leiðum og vekja athygli á tækifærunum sem fælust í því að efla fjárfestingu í nýsköpun.

„Við vildum í raun benda á hve glórulaust það er fyrir félag eins og Nox Medical að stökkva í örvæntingu á hlutabótaleiðina, lækka starfshlutfall og fela ríkissjóði að taka yfir bróðurpart launakostnaðar félagsins. Við ásamt hagsmunaaðilum og Samtökum iðnaðarins áttum góð samtöl við ráðamenn úr öllum flokkum og var virkilega ánægjulegt að sjá hvað okkar afstaða mætti miklum skilningi. Við hjá Nox Medical erum því mjög ánægð með að hafa haldið okkar striki við mjög erfið skilyrði og trúað því að samtalið gæti leitt til útfærslu á áhrifaríkum leiðum sem snúa vörn í sókn og skapa raunverulega viðspyrnu út úr þeim tímabundna vanda sem við blasir."

Nánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér