*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 26. júní 2019 16:30

Sókn á sænskan markað fer vel af stað

Sókn jurtalyfjafyrirtækisins Florealis á markað í Svíþjóð fer vel af stað, samkvæmt tilkynningu félagsins.

Ritstjórn
Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri Florealis.
Haraldur Guðjónsson

Kvenvörulína jurtalyfjafyrirtækisins Florealis hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Í maí síðastliðnum hóf apótekskeðjan Kronans sölu á tveimur vörum úr kvenvörulínu Florealis í 60 stærstu apótekum sínum. Til viðbótar hefur Apoteket AB sem er næst stærsta apótekskeðja Svíþjóðar með 378 apótek ákveðið að hefja sölu á tveimur lyfjum Florealis í október; Sefitude sem er viðurkennt jurtalyf við vægum kvíða og svefnvanda og Glitinum sem er eina fyrirbyggjandi lyfið við mígreni sem fæst án lyfseðils.

Þá segir jafnframt í tilkynningunni að það stefni í mikinn vöxt hjá félaginu á erlendri grundu.

"Þessi áfangi er mjög mikilvægur fyrir okkur. Til að komast með vörur í hillur sænskra apóteka þurfa þær að standast mjög strangar gæðakröfur og þar sem samkeppnin er mikil þurfa þær einnig að hafa mikla sérstöðu á markaðnum. Vörur okkar hafa fengið góðar viðtökur í Svíþjóð og eru þær í dag fáanlegar í öllum helstu netapótekum þar í landi. Í október munum við vera í hillum tveggja stórra apótekskeðja og eru yfirstandandi viðræður við fleirri apótekskeðjur á markaðunum um að taka inn vörur frá okkur í haust" segir Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri Florealis, í tilkynningunni. „Mikill áhugi er á að bjóða upp á vandaðar náttúruvörur sem byggja á vísindalegum grunni og viljum við bjóða upp á lausnir sem auka lífsgæði fólks til framtíðar."

Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá var Ólöf Þórhallsdóttir ráðin til félagsins í mars sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs, vegna aukinna umsvifa Florealis á erlendum mörkuðum. Ólöf mun leiða markaðssókn fyrirtækisins bæði innanlands og erlendis. Ólöf hefur sterk tengsl og reynslu á lyfjamarkaðnum á Norðurlöndunum en hún var búsett í Svíþjóð. Einnig hefur Florealis opnað nýja svæðisskrifstofu í Stokkhólmi og ráðið þangað tvo reynslumikla starfsmenn á sölu- og markaðssviði.

„Íslendingar hafa tekið vörum Florealis fagnandi og það er ánægjulegt að geta boðið upp á viðurkenndar lausnir við ýmsum sjúkdómum sem plaga fólk og styðja þannig við betri heilsu. Fyrstu viðbrögð frá Svíþjóð eru einnig jákvæð, sem dæmi var Aleria bólukremið frá Florealis valið bólukrem ársins 2019 í Aftonbladet í Svíþjóð," segir Ólöf í tilkynningunni. Hún sér ýmis tækifæri framundan. „Auk þess að styrkja stöðu okkar í Svíþjóð þá erum við í samstarfi við sterkan aðila á finnska markaðnum og stefnum á að hefja sölu þar síðar á árinu."