Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra undirrituðu átta sóknaráætlanasamninga með fulltrúum landshlutasamtakanna í dag. Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðssins en samningarnir byggja á lögum byggðaáætlun og sóknaráætlanir sem hafa það að m.a. markmiði að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála,

Grunnframlag ríkisins til samninganna árið 2020 nemur 716 milljónum króna en með viðaukum og framlagi sveitarfélaga nema framlög alls 929 milljónum króna.

Sóknaráætlanir landshluta eru þróunaráætlanir sem fela í sér stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Markmiðið er að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála byggi á áherslum heimamanna.

„Sóknaráætlanir eru öflugt tæki sem heimamenn í hverjum landshluta geta beitt til að efla blómlegar byggðir um land allt. Hugmyndafræði sóknaráætlana gengur út á að ná fram betri nýtingu fjármuna og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna. Þær hafa sannað gildi sitt en grunnhugsunin er valdefling landshluta er byggi á stefnumótun, áherslum og áætlanagerð þeirra,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í fréttinni á vef stjórnarráðsins.

„Gegnum sóknaráætlanir er lagður grunnur að öflugu menningarstarfi um land allt en framlög fara bæði til menningarstofnana og til einstakra verkefna í skapandi greinum. Menningarlíf nærir samfélagið á hverjum stað, bæði fyrir þá sem skapa og þá sem þess njóta og ég hvet áhugasama til þess að kynna sér þau fjölbreyttu verkefni sem þessu tengjast og þá möguleika sem felast í menningarsamstarfi ríkisins og sveitarfélaganna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.