Á sjöunda tug fyrirtækja og stofnana komu saman á stefnumóti um nýsköpun í áliðnaðinum sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í síðustu viku. Stefnumótið var tvíþætt, annars vegar málþing þar sem fjallað var um ný- sköpunarumhverfið og hins vegar voru kynntar átján hugmyndir sem snúa að framþróun og verðmætasköpun í greininni og í framhaldinu voru þær ræddar í smærri hópum.

Á meðal hugmynda sem bornar voru upp voru fullvinnsla gjallsands, háhitaeinangrun „one stop“, álgaffall Lauf Forks, samræming öryggisnámskeiða í stóriðnaði, orkuhjáveita, sjálfvirkt hitaeftirlit, ungir hönnuðir í fyrirtækjum, ísbrú, andblær loftræstikerfis og varmaendurvinnsla úr afgasi. Samtök iðnaðarins, Samál og íslenski álklasinn stóðu að stefnumótinu.

Í upphafserindi Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls og stjórnarformanns Samáls, kom fram að samgöngur til og frá landinu væru góðar og verulega aukinn áhugi á frekari vinnslu áls hér á landi, bæði meðal starfandi fyrirtækja og nýrra fyrirtækja, sem skilaði sér í auknum verðmætum og þjóðartekjum. „Staðsetning Íslands, ekki síður en hversu umhverfisvæn framleiðslan er, er klárlega styrkur íslenskra álframleiðenda. Það má því segja að það sé heilmikil gerjun í gangi og sóknarfæri ef vel er haldið á málum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .