Sjö íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi kynna starfsemi sína í Múrmansk í Rússlandi, þetta kemur fram í Morgunblaðinu . Fyrirtækin kynna meðal annars vörur sínar og þjónustu í næstu viku.

Að sögn Ernu Björnsdóttur, verkefnastjóra hjá Íslandsstofu, er mikið sóknarfæri fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, þar sem að fram undan er mikil uppbygging á rússneska fiskiskipaflotanum í Barentshafi og á fiskvinnslu í Rússlandi.

Ferðin verður farin að frumkvæði sendiráðs Íslands í Mosvku. Einnig heldur Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Rússlandi, erindi á alþjóðlegri ráðstefnu sem verður haldin í Múrmansk.

Viðskiptabann hefur verið lagt á fisk til Rússlands, en engar hindranir eru á sölu fiskveiða og -vinnslubúnaði til Rússlands. Til að mynda tók fyrirtækið Karat nýlega í notkun „ofurkælingakerfi“ frá Skaganum.

Fyrirtækin sem kynna starfsemi sína í Rússlandi eru; Skaginn, Marel, Hampiðjan, verkfræði- og ráðgjafafyrirtækið Navis, Naust Marine, Borgarplast og Sjógull.