*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 28. mars 2020 18:16

Sóknarhugur á 45. afmælisárinu

Orkuvirki fagnar 45. starfsári sínu á þessu ári og er fyrirtækið í sóknarhug undir stjórn nýs framkvæmdastjóra.

Sveinn Ólafur Melsted
Janus Sigurjónsson

Fyrirtækið Orkuvirki fagnar um þessar mundir 45 ára afmæli sínu og er sóknarhugur í fyrirtækinu fyrir komandi tímum. Nú nýlega var nýr framkvæmdastjóri ráðinn og er honum ætlað að leiða sókn fyrirtækisins inn í framtíðina.

„Ég hóf störf hjá fyrirtækinu í febrúar og kom á sama tíma inn í eigendahópinn. Ég þekki fyrirtækið frá fyrri tíð og var því mjög spenntur fyrir að ganga til liðs við það. Orkuvirki hefur komið að flestum stærri orkusæknum verkefnum landsins, hvort sem það sé stóriðja eða uppbygging flutnings- og dreifiveitna á Íslandi," segir framkvæmdastjórinn Guðmundur Sigvaldason.

Tækifæri leynist víða

Að sögn Guðmundar hefur velta Orkuvirkis verið breytileg milli ára en á undanförnum 10 árum hafi velta hvers árs verið á bilinu 900- 1.500 milljónir króna. Spurður um framtíðaráform Orkuvirkis segir Guðmundur að fyrirtækið ætli sér að vera áfram leiðandi verktaka- og verkfræðifyrirtæki á orkumarkaðnum og taka þátt í þeim áskorunum sem framundan eru í orkumálum Íslands.

„Orkuskipti í samgöngum eru í fullum gangi og ætlum við að taka virkan þátt í þeim. Síðan viljum við að sjálfsögðu halda áfram að veita núverandi viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu. Orkuvirki hefur verið leiðandi aðili á markaðnum í gegnum tíðina og viljum við nú styrkja stöðu okkar innan hans enn frekar.

Fyrirtækið á 45 ár af farsælum rekstri að baki og erum við nú að horfa inn í breytta og vonandi bjarta tíma. Það er gríðarlega mikil innviðauppbygging framundan á íslensku raforku- og flutningskerfi. Veturinn hefur leitt í ljós að full þörf er á að styrkja flutningskerfið, þá sérstaklega á landsbyggðinni. Við höfum verið að þjónusta alla hluteigandi aðila að flutningskerfinu og því felur þessi innviðauppbygging í sér mikil tækifæri fyrir okkur."

Guðmundur kveðst einnig sjá sóknarfæri í gagnaversuppbyggingu. „Við höfum undanfarin ár komið að vinnu í tengslum við uppsetningu gagnavera og vonandi bætast fleiri slík við í framtíðinni, þar sem þetta eru skemmtileg verkefni til að taka þátt í."

Einu innlendu háspennuskáparnir

Orkuvirki er eina íslenska fyrirtækið sem framleiðir háspennuskápa en framleiðsla þeirra hófst árið 1992. Guðmundur segir þetta eina af sérstöðum fyrirtækisins, en bendir jafnframt á að samkeppni við innflutta háspennuskápa sé erfið.

„Við höfum átt undir högg að sækja í samkeppni við innflutta vöru, sem helgast af gengi krónunnar og ódýrara vinnuafli erlendis. Þetta fer því allt mikið eftir genginu á hverjum tíma og ef það fer að veikjast þá eykst samkeppnishæfni okkar. Við erum með yfir þúsund svona skápa í rekstri á landsvísu. Þessa skápa má finna í mörgum veitum innan dreifikerfis landsins og hafa skáparnir staðist tímans tönn, enda eru viðskiptavinirnir mjög ánægðir með þá. Tryggvi Þórhallsson heitinn má segja að sé frumkvöðullinn á bakvið fyrirtækið og átti hann frumkvæði að hönnun og smíði háspennuskápanna."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér