Evrópski seðlabankinn hefur nú lækkað stýrivexti verulega, að því er fram kemur á vef Financial Times , en það er í takt við spár . Vextirnir eru nú 0,15% en þeir voru 0,25% áður. Einnig hefur seðlabankinn tekið upp neikvæða vexti á innistæður eða -0,10 %. Það þýðir að bankastofnanir munu þurfa að greiða fyrir að geyma innistæður í seðlabankanum, í stað þess að þær safni vöxtum. Þetta mun vera í fyrsta skiptið sem stór seðlabanki tekur upp neikvæða innlánsvexti.

Vonast er til að þess að þessi aðgerð komi til með að auka verðbólgu og hleypa nýju lífi í hagkerfið á evrusvæðinu. Verðbólga hefur verið mjög lág síðustu mánuði og hefur óttinn um verðhjöðnun látið sífellt meira á sér kræla.