Fyrstu kappræður bandarísku forsetaframbjóðendanna, demókratans Barack Obama og repúblikans John McCain, fóru fram í nótt, að íslenskum tíma, við Mississippi háskóla.

Þar ræddu þeir ríkisútgjöld, skattamál og stríðið í Írak auk þess sem núverandi ástandi í efnahagsmálum voru gerð skil. Efuðust þeir báðir um dómgreind hvors annars og getu til þess að taka á yfirstandandi vandamálum föstum tökum.

Báðir lýstu þeir áhyggjum sínum af ástandinu á fjármálamörkuðum og að mikilvægt væri að taka þau mál föstum tökum. Bæði hvað varðar fyrirtækin sem og fjölskyldur í landinu. Efnahagslægð og möguleg kreppa mun væntanlega verða helsta viðfangsefni næsta forseta Bandaríkjanna.

Með kappræðum sem þessum gefst almennum kjósendum í Bandaríkjunum kostur á því að bera saman frambjóðendur og sjá hvers megnugir þeir eru sem ræðumenn og að vinna undir mikilli pressu.

John McCain benti sem fyrr á reynsluleysi Obama og taldi hann illa að sér á ýmsum sviðum. Obama sagði hins vegar McCain einblína um of á ástandið í Írak, líkt og núverandi forseti, George W. Bush, en nauðsynlegt væri að víkka sjóndeildarhringinn og horfa á vandamál Bandaríkjanna í stærra samhengi.

Obama nýtti sér óvinsældir Bush og var duglegur að benda á það að flokksbróðir hans, McCain yrði lítt skárri í starfi að hans mati. John McCain taldi Obama einfaldlega vera barnalegan.

Kappræðurnar stóðu í 90 mínútur og fyrirfram var búist við því að sjónvarpsútsending þeirra myndi slá áhorfsmet í Bandaríkjunum en frá kappræðunum var sýnt á nær öllum helstu sjónvarpsstöðvum vestan hafs. Jók það einnig á spennu áhorfenda að John McCain hafði hótað að sniðganga kappræðurnar.

Ekki verður auðveldlega sagt hver sigurvegari kappræðnanna var. Skiptar skoðanir eru um þau mál en sérfræðingar hafa nú verið að meta svör Obama og McCain. Þar skipta orðin ein ekki öllu heldur einnig líkamstjáning og sjálfsöryggi frambjóðendanna.

Gengið verður til kosninga 4. nóvember og mun svo, að öllum líkindum, annað hvort Obama eða McCain taka við valdamesta embætti heims í byrjun næsta árs.